Nýr sveppur finnst í Siglufirði


Staðfest var nýverið í rannsókn hjá Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri að sveppur sem fannst í Skarðdalsskógi í Siglufirði í ágúst 2016 hefur aldrei áður fundist hér á landi, svo vitað sé.

Sá var turkisblár að lit yfir hattinn og með áberandi kraga, stafurinn var 4-8 mm breiður, hvítur og sléttur ofan kraga en fölgrænleitur og með brúska eða flösukennda áferð neðan hans, og reyndist, þegar Kerstin Gillen sveppafræðingur var búin að rannsaka hann á Náttúrufræðistofnun Íslands á Akureyri, þarna vera um að ræða Stropharia aeruginosa. Sú tegund átti ekkert íslenskt heiti og var og er óæt. Eina dæmið um hana hér á landi í gagnagrunni GBIF, sem er skammstöfun fyrir the Global Biodiversity Information Facility (gbif.org), var úr Sogamýri í Reykjavík, en þar fannst aldin hennar árið 1947, að því er segir þar, en síðan ekki söguna meir. Það er varðveitt á safni í Kaupmannahöfn.

Vegna þess hve þessi fundur hér yst á Tröllaskaga er sérstakur var ákveðið að senda fleiri aldin úr Siglufirði inn á Akureyri til nánari rannsóknar á haustdögum í ár og staðfesti Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, eftir nákvæma skoðun fyrri greiningu. Úrskurðarorð hennar voru þessi: „Miðað við greiningarlykil fyrir blínur, ættkvíslina Stropharia í Funga Nordica þá er stafur sveppsins ekki slímugur neðan við kraga, hann er þurr. Hatturinn er blágrænn á litinn en getur fölnað yfir í gulan lit með aldri. Næsta atriði var að það voru ekki þumlur með kristalkenndu efni á egginni (það voru þannig blaðþumlur en ekki eggþumlur). Gró sveppsins voru ekki yfir 5,5 µm á breidd. Og síðasta atriðið var að útbelgdir endar eggþumla voru 8-10 µm breiðir (ekki 2-7 µm) og þar endaði greiningin á Stropharia aeruginosa (Curtis: Fr.) Quél., sem réttast væri að kalla grænblínu. Í þessu voru útilokaðar bláblína (Stropharia cyanea) og mosablína (Stropharia alpina).“

Hattur sveppsins er í bókum gefinn upp sem 30 til 60 mm í þvermál, þeir allra stærstu 100 mm.

Guðríður Gyða taldi ólíklegt, að sveppurinn sem fannst í Reykjavík um miðja síðustu öld hafi í raun verið Stropharia aeruginosa, þegar það var borið undir hana í vikunni, því umrætt latínuheiti hafi áður fyrr verið notað um mosablínu og líklega fleiri grænleitar blínur, en hún kvaðst þurfa að skoða sýnið til að taka af allan vafa. Litlu síðar fann hún svo lýsingu Morten Lange á sveppnum og miðað við hana var þar um mosablínu að ræða. Jafnframt kom í ljós að Morten þessi var þegar árið 1980 búinn að greina umræddan svepp sem mosablínu, en gleymst hefur að breyta því í gagnagrunni GBIF.

Þetta merkir að hinn nýfundni sveppur, Stropharia aeruginosa, sem nú hefur fengið heitið grænblína hefur hér á landi eingöngu fundist í nyrsta skógi á Íslandi til þessa.

Skógræktarfélag Siglufjarðar var stofnað árið 1940 en það var hins vegar ekki fyrr en eftir að Skarðdalsland var girt, árin 1950 og 1951, að farið var að gróðursetja þar trjáplöntur, aðallega sitkagreini. Aðspurð um hvernig grænblínan hafi komist þangað svarar Guðríður Gyða, að það hvernig sveppir berist á milli staða sé oftast nánast ómögulegt að segja til um. Þau tré, sem sveppurinn vaxi nærri í Skarðdalsskógi, hafi væntanlega verið ræktuð upp hérlendis en þessi flotti sveppur hafi ekki sést annars staðar ennþá. En skógur geti líka þurft að ná vissum þroska áður en sumir sveppir birtist þar sem aldin.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is