Nýr líkbíll tekinn í notkun


Eins og flestum bæjarbúum er eflaust orðið kunnugt er nýr líkbíll tekinn við hlutverki þess sem verið hefur í notkun í Siglufirði undanfarin ár. Sá var farinn að gamlast all verulega og ekki alltaf á hann treystandi á viðkvæmum augnablikum og því var ráðist í að útvega annan í hans stað. Keyptur var bíll í eigu Fjallabyggðar og tóku þeir að sér hjá Múlatindi í Ólafsfirði að sprauta hann svartan. Í Skiltagerð Norðurlands í Ólafsfirði voru keyptir fimm krossar til að líma á hann að sprautun lokinni.

Fyrirtækið L-7 Verktakar, þ.e. Brynjar Harðarson og hans menn, innréttuðu bílinn og gerðu kláran fyrir bólstrun, en það var JE vélaverkstæði sem sá svo um að klæða hann að innan. Bæði þessi fyrirtæki gáfu allt efni og vinnu sína og er þeim hér með þakkað innilega fyrir veglegan styrk og vel unnið verk.

Systrafélag Siglufjarðarkirkju fjármagnaði kaupin ásamt kirkjugörðum Siglufjarðar og velunnurum bæjarins. Af þeim mætti sérstaklega nefna Steinunni Róbertsdóttur, en hún safnaði rúmum 70 þúsund krónum í verkefnið, hún átti stórafmæli en afþakkaði gjafir og bað vini sína að leggja frekar inn á söfnunarreikning líkbílsins, sem þeir og gerðu.

Reikningurinn, sem stofnaður var á kennitölu Systrafélagsins, 680499-2849, vegna þessara kaupa, er enn opinn. Hann er númer 0348-13-300115.

Líkbíllinn var formlega tekinn í notkun í þarsíðustu viku, í aðdraganda og við útför Guðborgar Franklínsdóttur.

Systrafélagið þakkar af alhug öllum þeim sem að þessu verkefni hafa komið.

Myndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Júlía Birna Birgisdóttir.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is