Nýr brunastigi kominn á vesturgafl Siglufjarðarkirkju


Þann 20. maí var byrjað að setja upp nýjan og vandaðan brunastiga á vesturhlið Siglufjarðarkirkju. Því verki lauk rúmri viku síðar, 28. maí. Forveri hans þótti ekki boðlegur lengur. Sá var útdraganlegur.

Hinn nýja stiga, sem kostaði uppsettur eina og hálfa milljón, teiknaði Ólafur Sigurðsson tæknifræðingur og um smíðina sá SR-Vélaverkstæði hf. Sparisjóður Siglufjarðar gaf kr. 500.000 til kirkjunnar af þessu tilefni og kr. 500.000 til Systrafélagsins sem það svo gaf áfram til kirkjunnar og stigans, Kiwanis gaf kr. 200.000 og Kvenfélagið Von kr. 300.000.

Mikið starf er í Siglufjarðarkirkju á veturna, jafnt uppi sem niðri, einkum um helgar, t.d. fjölskipaður kirkjuskóli, og því ekki forsvaranlegt annað en að hafa öryggismálin í lagi. Fjárskortur hefur þó staðið kirkjunni fyrir þrifum eftir hrun, líkt og er víða annars staðar í landinu. En með stuðningi framannefndra aðila tókst að koma þessu í höfn.

Er hinn nýi og glæsilegi stigi kirkjunni og gefendunum til mikils sóma.

Myndir: Mikael Sigurðsson og Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is