Nýr bæjarstjóri Fjallabyggðar


Sigurður Valur Ásbjarnarson er hinn nýi bæjarstjóri Fjallabyggðar. Gengið var frá ráðningu hans 23. júní síðastliðinn.

Hann er fæddur 13. mars árið 1950 og er byggingatæknifræðingur að mennt. Hann bjó til 5 ára aldurs í Hafnarfirði en ólst síðan upp á Suðurnesjum.

Maki hans er Hulda Stefánsdóttir og eiga þau fjóra syni, Ásbjörn, Höskuld, Stefán Val og Lárus Kristin; fimmti og elsti sonur Sigurðar er Hjálmar.

Sigurður Valur hefur síðustu 18 ár verið bæjarstjóri í Sandgerði og var þar áður í 10 ár sveitarstjóri á Álftanesi.

En hvernig ætli starfið leggist í hann?

?Jú, alveg ljómandi vel,? sagði Sigurður Valur, þegar fréttamaður hafði samband við hann í gærkvöldi. ?Þetta gerðist náttúrulega afskaplega hratt, þannig að fjölskyldan er að skoða hlutina. En við erum full tilhlökkunar að takast á við nýtt verkefni og það er það sem skiptir máli; og ekki síður það fólk sem maður er að fara að vinna með. Einn maður getur ekki mikið nema hafa góða með sér.?

Þessa dagana er verið að leita að íbúðarhúsnæði í Ólafsfirði og Siglufirði og ræðst á næstu dögum hvorum megin í sveitarfélaginu heimilð verður. 

Siglfirðingur.is býður Sigurð Val, konu hans og börn hjartanlega velkomin norður og óskar þeim ánægjulegrar dvalar hér sem og að öllu öðru leyti alls hins besta í framtíðinni.

 

Mynd: www.xd.is

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is