Nýjasta gallerí bæjarins


Á páskadag var sá hluti Ytrahússins á Siglufirði sem enn stendur, Söluturninn, sem jafnframt er 6. elsta hús bæjarins, tekinn í notkun eftir gagngerar endurbætur. Hefur honum verið breytt í sýningarrými og verður þar hér eftir rekið gallerí með fjölbreytilegum sýningum. Fyrsta sýningin er á verkum Guðmundar Kristjánssonar, Guðmundar góða, sem margir Siglfirðingar muna vel eftir.

Söluturninn var byggður árið 1905 sem viðbygging við Ytrahúsið sem reist var 1861. Þáverandi eigandi hússins, Guðmundur S. Th. Guðmundsson (1865-1911), bjó í Ytrahúsi og rak verslun í nýbyggingunni og þar var fyrsta póst- og símstöð Siglufjarðar. Þá eru og heimildir fyrir því að þar hafi Sparisjóður Siglufjarðar verið til húsa um skeið. Elsti hluti Ytrahúss og viðbygging til austurs var rifin árið 1978 en norðurhlutinn skilinn eftir. Frá því fyrir 1950 og fram til 1999 var rekinn þar blaðsöluturn og sjoppa. Meðfram Söluturns-nafninu var verslunin jafnan kennd við eigendur eða verslunarstjóra hverju sinni: Höllusjoppa, Lillusjoppa, Svennasjoppa, Gunnusjoppa, og síðast Þorrakjör sem lokað var 1999.

Örlygur Kristfinnsson er núverandi eigandi hússins og hóf viðgerð innanhúss árið 2016 og hafa innréttingar verið endurunnar í upprunalegum stíl.

Um Guðmund Kristjánsson (1902-1994), sem er viðfang þessarar fyrstu sýningar í Söluturninum, segir þar, að hann hafi alist upp við bág kjör vestur á Snæfellsnesi, hafi stundað sjómennsku á unga aldri, numið síðar járnsmíði og rekið vélsmiðju á Siglufirði um hálfrar aldar skeið. Guðmundur hafi verið mjög listhneigður og árið 1930 haldið málverkasýningu á Akureyri. Eftir að hafa heyrt neikvæða gagnrýni sýningargesta eyðilagði hann flest verkin. Þrjú þeirra sem varðveist hafa frá þessum tíma eru á umræddri sýningu.

Orðrétt segir svo: „Guðmundur var alla tíð einsetumaður. Vann hann langan starfsaldur að iðn sinni og notaði drjúgan hluta tekna sinna til að styrkja góð málefni. Um 1980 tók hann fram pensla sína og liti á nýjan leik. Neikvæð viðbrögð og gagnrýni skiptu ekki lengur máli, því myndsköpun hans þjónaði æðri tilgangi: að styðja bágstadda. Verk sín seldi hann í þágu hjálparstarfs Móður Theresu og skóla holdsveikra barna á Indlandi. Til hliðar við málverkin vann hann margskonar nytja- og skrautgripi sem hann seldi á báða bóga. Gamli málm rennibekkurinn sneri mjúkum birkistofnum sem umbreyttust í bikara og blómavasa. Einnig samdi hann stutta ljóðræna texta um fegurð lífsins, sem hann seldi í litlum heftum til yndislestrar. Og kollóttir fjörusteinar urðu að hamingjutáknum í höndum Guðmundar.“

Sýningin mun standa fram undir júnílok. Að henni lokinni verður Árni Páll Jóhannsson með sumarsýningu á skúlptúrum sínum og eftir það, í haust, verður sýning á verkum Arnars Herbertssonar. Sýning Guðmundar og Arnars verða síðan árlegar, í nokkrar vikur í senn.

Forsíðumynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Aðrar myndir: Aðsendar.
Fylgja: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is