Nýja hljómleikahöllin á Siglufirði


Síldarminjasafnið á Siglufirði er fyrir löngu orðið lands- og heimsþekkt, og gríðarlegur fjöldi gesta kemur þangað ár hvert til að fræðast og njóta. Árið 2000 hlaut það Íslensku safnaverðlaunin fyrst safna, og árið 2004 Evrópsku safnaverðlaunin, hið eina á Íslandi.

Það hefur sem kunnugt er á að skipa fögrum byggingum, þar sem Roaldsbrakkinn er sennilega fremstur meðal jafningja, og Salthúsið, sem óðum er að taka á sig endanlega mynd, mun vafalaust einnig bera hróður safnsins víða, eins og hin. En merkilegustu söguna á þó líklegast nýjasta vistarveran. Þar er um að ræða stóran olíutanka, ríflega 22 tonna þungan, sem fyrir rúmu ári, eða nánar tiltekið 21. ágúst í fyrra, var ekið um götur Siglufjarðar og vakti mikla athygli. Hann var þá kominn á niðurrifsstig, hátt á níræðisaldri, nyrst og austast á Eyrinni, í porti Olís, en þótti svo vönduð smíði að ákveðið var að flytja hann til varðveislu á lóð safnsins, á milli Gránu og Bátahússins. Á stríðsárunum hafði hann verið málaður sem íbúðarhús til að villa um fyrir þýskum óvinaflugvélum í yfirvofandi loftárásum, að því er fram kemur í máli Anitu Elefsen sagnfræðings og safnstjóra á www.sild.is. Meðal gamalla málningarlaga á tankanum leynast merki um dyr og glugga þar sem mannvera stendur við uppvask eða er að vökva blómin sín.

Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að gera tankann manngengan, útbúnar voru dyr og botninn soðinn aftur í, en nauðsynlegt reyndist að skera hann úr fyrir flutninginn í fyrra til að létta byrðina. Er tankinn nú notaður sem sýningarrými og til fjölbreyttra uppákoma eins og tónleika, fyrirlestra, gjörninga og fleira. Síldarminjasafnið og Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar stóðu fyrir sameiginlegum vígslutónleikum í tankanum nú í júnílok. Að auki sýndu finnskir listamenn hljóð- og myndverk þar í tengslum við árlega Þjóðlagahátíð. Hljómburðurinn í rýminu þykir afar skemmtilegur, því tónarnir bergmála og magnast inni í þessu líka gímaldi.

Á myndinni hér fyrir ofan má sjá hinn unga og snjalla Hauk Orra Kristjánsson þenja nikkuna við innganginn 13. júní síðastliðinn.

Tankinn er á milli Gránu og Bátahússins.

Olíutanki BP á Siglufirði í felulitum á stríðsárunum, til að villa um fyrir þýskum flugvélum.

Litljósmyndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Svarthvít mynd: Ljósmyndari ókunnur.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is