Ný skipasaga Fljótanna skráð


„Ég vil skrá skipasögu Fljótanna öðruvísi en gert hefur verið, ég vil smíða skipin eins og þau voru.” Þetta segir Njörður Sæberg Jóhannsson, sem hefur til þessa dags smíðað tólf skipalíkön þar sem tomman er fetið, þ.e.a.s. í hlutföllunum 1 á móti 12. Langflest eru þau af gömlum, sögufrægum skipum Fljótamanna á 19. öld, og hvert öðru glæsilegra.
Njörður er fæddur á Siglufirði árið 1945 og hefur búið þar alla tíð. Hann á ættir að rekja til mikilla skipasmiða í Fljótum í Skagafirði og er sjálfur völundur í höndum, eins og verk hans öll bera með sér.
Blaðamaður og ljósmyndari tók á honum hús á dögunum og forvitnaðist nánar út í þetta sérstæða áhugamál.

Slysið á Mariönnu var kveikjan

„Árið 1956, þá 11 ára gamall, fór ég til Ólafsfjarðar og hitti ömmu mína, Jóhönnu Lovísu Gísladóttur, og ég spurði hana að því hvers vegna pabbi minn héti Jóhann Sævaldur. Og hún segir að árið 1922 – í Krossmessubylnum svokallaða – hafi m.a farist skip úr Eyjafirðinum sem hét Marianna, með 12 manna áhöfn, sem allt voru Fljótamenn, og skipstjórinn hafi heitið Jóhann Jónsson og hann hafi vitað til nafns og beðið hana um að Jóhann – en hún var þá ófrísk að föður mínum – yrði látinn heita Jóhann Sævaldur. Þannig kemur skýringin á þessu nafni,” segir Njörður.

„Mér finnst þetta allt dálítið skrýtið og fer ári eftir, um páskana, með afa mínum í móðurætt, Jóni Kristjánssyni frá Lambanesi, siglandi á trillu hans yfir í Haganesvík og þaðan inn í Flókadal. Og ég man að fleiri guttar voru þarna með í för. Ég fór að Vestari-Hóli, því þegar heimili foreldra pabba leystist upp var hann fyrst þar í fóstri og þekkti þetta fólk mjög vel. Ástæðan fyrir því að ég fór þangað var líka sú, að Sigmundur sem bjó á Vestari-Hóli 1922, missti tvo syni sína með Mariönnu; þeir hétu Anton og Björgvin. Og ég fór að spyrja fólkið sem var þarna út í þetta og um þennan Jóhann, og þarna fæ ég að heyra allt um Mariönnu og þetta hræðilega slys. Ég fer svo til baka af Vestari-Hóli að loknum páskum og niður í Haganesvík og gisti þar eina nótt hjá vinafólki, Hermanni og Petru, og fræðist enn meira um téða atburði. Og þannig vaknar áhugi minn á sögu Fljótamanna.
Áhugi minn á skipasmíði kviknar svo fyrir alvöru þegar ég er 14 ára. Þá kaupir pabbi minn gamla trillu sem bróðir hans hafði átt og þurfti að gera við og hann fékk áðurnefndan afa minn, Jón, til að hjálpa sér, að höggva bönd og annað. Og ég fékk að aðstoða, halda við þegar verið var að hnoða o.s.frv. Nú varð ekki aftur snúið. Og ég hef alltaf verið með sögu Fljótanna á bak við eyrað síðan, leitað víða að heimildum og ekki síst um skipasmíði þar, og mér hefur tekist að ná aftur til ársins 1430 og fram til 1922 í því grúski mínu.”
Þess má geta, að Njörður og faðir hans endursmíðuðu hér um árið Sigurvin, fiskibát Gústa guðsmanns, sem var orðinn illa farinn eftir volk í tímans straumi. Hann er nú til sýnis í einni byggingu Síldarminjasafns Íslands, Bátahúsinu.

Fljótin

Fyrr á öldum og allt fram til ársins 1898 var í Fljótum einn hreppur, Fljótahreppur eða Holtshreppur, gríðarmikill að umfangi og með þeim allra stærstu á Íslandi. Hann lá upphaflega á milli Stafár, vestan Reykjarhóls á Bökkum, og Sauðaness, nokkurn veginn, en 1826 færðist austurlínan að Almenningsnöf, norðan við Hraun.
Landnámsmenn eru taldir hafa verið sex: Flóki Vilgerðarson, Nafar–Helgi, Þórður Knappur Bjarnarson, Bárður suðureyingur, Brúni Háreksson og Úlfur víkingur og undirstrikar þessi fjöldi áðurnefnt, víðfeðmi sveitarinnar. Ætíð var líka mannmargt í hreppnum. Árið 1703 eru þar tæp 19% allra Skagfirðinga, eða 588 einstaklingar, í harðindakaflanum mikla 1785 eru þeir rúm 19% heildarinnar, og alla nítjándu öldina 15–18%.
Árið 1870 búa í Fljótum 766 manns og hafa þá aldrei verið fleiri, af opinberum skýrslum að dæma. Býli eru um 90 talsins, að kotum og hjáleigum meðtöldum. Og sjómannaskóla er komið á fót í Haganesvík.
Útveginum fylgdu ætíð sjóskaðar. Á árunum 1790-1793 fórust t.a.m. 5 hákarlaskip úr Fljótum, og þá urðu sextán konur ekkjur og 40 börn munaðarlaus. Og í áðurnefndum Krossmessubyl 1922, þegar Marianna sökk, fórust einnig Aldan, Hvessingur og Samson.

Fljóta-Víkingurinn næstur

„Fyrsta líkanið sem ég smíðaði var gamli Úlfur, sem Þorsteinn í Haganesvík átti, svo gerði ég lítinn árabát handa sjálfum mér og ætlaði svo að hætta, en gat það ekki,” segir Njörður. „Eftir það kom Marianna, þá Bæringur SK 5, sem Páll Árnason  á Ysta-Mói smíðaði 1898 fyrir Einar Hermannsson á Molastöðum, og síðan annar Bæringur sem langafi minn í föðurætt, Ásgrímur Sigurðsson, smíðaði upphaflega 1894, og eftir það gerði ég Vonina og Óskina, þá Sigurvin, bát Gústa guðsmanns, og svo þessi fjögur nýjustu: Blíðhaga, Skagaströnd, Hraunaskipið og Hákarl.”

Öll eru fleyin varðveitt innan fjölskyldunnar.

„Ég er með Haffrúna núna, hún var smíðuð inni í Hraunakrók fyrir Nesbændur, og næst langar mig að glíma við hákarlaskipið Víking, sem oftast gekk undir nafninu Fljóta-Víkingurinn.”

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is