Ný húsaskilti


Fyrir skömmu gaf Ytrahúsið-áhugamannafélag nokkrum húsum í miðbæ Siglufjarðar vönduð, emaleruð nafnskilti. Um er að ræða söguleg hús í miðbænum sem hafa notið verulegra endurbóta og viðhalds á undanförnum árum. Við afhjúpun skiltanna var nokkur hópur fólks saman kominn og að því loknu bauð Aðalbakarí upp á kaffi og kökur.

Ytrahúsið-áhugamannafélag hefur einnig styrkt önnur verkefni, Kvæðamannafélagið Rímu til kaupa á hljómtækjum fyrir flutning þjóðlaga úr kirkjuturninum og gerð upplýsingaskiltis við hlið minnisvarða um Hafliða Guðmundsson.

Eftir sölu Ytrahússins í fyrra varð félaginu þetta gerlegt – og er framtakið hugsað í þágu samfélagsins til að endurgjalda að einhverju leyti þann stuðning sem viðgerð Ytrahússins/Söluturnsins hefur notið. Þar er um að ræða stuðning frá Húsafriðunarsjóði ríkisins, Siglufjarðarkaupstað, Selvík ehf, Menningarsjóði Sparisjóðsins og fleirum.

Myndir: Sveinn Þorsteinsson og Örlygur Kristfinnsson.
Texti: Örlygur Kristfinnsson.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is