Ný geislaplata frá Tóta


Þórarinn Hannesson, Tóti kennari, er að senda frá sér nýja geislaplötu.
Platan ber heitið Á fornum slóðum og í tilefni af útkomunni verða
útgáfutónleikar í Ljóðasetri Íslands á Siglufirði annað kvöld, fimmtudaginn 3. júlí,
kl. 17.00.

Í fyrsta sinn á Íslandi?

Þetta er fimmta geislaplatan sem Tóti sendir frá sér og nú kveður við svolítið nýjan tón, miðað við það sem hann hefur áður gert, því á þessari nýju plötu kveður Tóti 18 frumsamin kvæðalög í anda gömlu íslensku þjóðlaganna sem sr. Bjarni Þorsteinsson á Siglufirði átti drjúgan hlut í að bjarga frá glötun. Er þetta í fyrsta sinn, svo vitað sé, að gefin er út plata hérlendis sem inniheldur einungis frumsamin kvæðalög. Lögin eru kveðin við vísur hinna ýmsu skálda. Sum skáldanna eru vel þekkt en önnur minna og eru yrkisefni þeirra af ýmsu tagi. Þrjú skáldanna eru frá Siglufirði og Fljótum en þar er um að ræða þá Ásgrím Sigurðsson frá Dæli, Guðlaug Sigurðsson (Laugja póst) og Pál Helgason fyrrum íslenskukennara. Flest lögin urðu til á Ljóðasetri Íslands á Siglufirði á síðustu tveimur árum og er platan seld til styrktar starfseminni þar. Þórarinn er forstöðumaður setursins.

Þórarinn hefur verið virkur félagi í kvæðamannafélögum á Siglufirði undanfarin ár, fyrst með kvæðamannahópnum Fjallahnjúkum og síðan kvæðamannafélaginu Rímu sem stendur fyrir öflugu starfi í Fjallabyggð. Eitt helsta hlutverk þessara félaga er að viðhalda og vekja athygli á þessum merka menningararfi okkar og er þessi plata m.a. hugsuð sem liður í að vekja áhuga almennings á okkar gömlu kvæðalögum.

Platan verður til sölu á Ljóðasetrinu, Þjóðlagasetrinu og víðar. Einnig er hægt að panta hana áritaða beint frá Tóta í gegnum fésbókina eða í gegnum netfangið hafnargata22@hive.is.

Þórarinn Hannesson var að gefa út nýja plötu.


Útgáfutónleikar verða annað kvöld, fimmtudaginn 3. júlí, kl. 17.00.

Mynd og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is