Ný dúfa í bænum


Ný dúfa hefur undanfarnar þrjár vikur sést í bænum. Hún er ívið stærri en hinar, að sögn Örlygs Kristfinnssonar, og hefur ekki – þegar síðast var vitað – tekist að aðlagast að fullu hópnum sem fyrir var. En einstaklega falleg er hún og óvenju gæf, eltir jafnvel gangandi fólk töluverðan spöl.

Nýja dúfan blandast hópnum þegar æti er boðið en annars ekki.

Hún er óvenju gæf.

 

Hvaðan hún kom er ómögulegt að segja. Hún gæti hafa þvælst með vindum að utan, en einnig hafa komið frá einhverju plássinu hér innanlands, því enn eru dúfur í nokkrum þeirra. Áhugavert væri að frétta hvort einnar slíkrar sé saknað.

Örlygur tók saman í fyrra eftirfarandi frásögn um siglfirsku dúfurnar, sem mikill fengur er að, og er hún birt í fyrsta skipti opinberlega hér með góðfúslegu leyfi hans.

 

Um siglfirsku dúfurnar

Eins og logi yfir akur

Fyrir allmörgum árum (um 1995) var verið að setja upp eitthvert leikrit hjá Leikfélagi Akureyrar. Einn ,,leikaranna” var dúfa. Þegar til átti að taka fannst engin slíkur fugl á Akureyri. Og ekki heldur í öðrum bæjum á Norðurlandi og jafnvel víðar – nema á Siglufirði. Þannig að í það skiptið fór einn Siglfirðingur með hlutverk á fjölum gamla samkomuhússins á Akureyri.[1] Ekki fylgir það sögunni hvort það var í leikritinu Dúfnaveislan eftir Halldór Laxness – sem reyndar engin dúfa leikur í!

Þetta dúfnahvarf úr bæjum landsins vakti furðu. Við athugun kom það í ljós að fyrirtækisins „Meindýravarnir Íslands ehf.“ hafði ekið um landið á jeppa hlöðnum skotvopnum, gildrum og hverskyns eiturefnum og samið við sveitarstjóra um útrýmingu á öllum meindýrum þ.m.t. dúfum, „gegn vægu gjaldi“. Aðeins einn bæjarstjóri hafnaði útrýmingaráætluninni – það var Björn Valdimarsson á Siglufirði – þökk sé honum!

Þannig er sú saga.[1]

Minning frá Eyrargötunni 1957

Í húsasundi híma dúfur og vappa um moldarplanið í leit að einhverju ætilegu. Flestar þeirra sitja þær á nálægum húsburstum og skúrþökum og mæna niður í sundið. Bíða eftir tryggri matargjöf. Svo kemur hann, Ösku-Teddi, loks gangandi eftir götunni, inn í sundið og teygir sig inn fyrir dyr. Birtist á ný með kornskál í vinstri hendi og sú hægri ausandi á báða bóga. Um stund hverfur hann næstum í þykkum fjaðramekki sem leggst síðan iðandi á jörðina. Og allt í kringum hann skjótast þær hver um aðra þvera og kroppa í hvelli öll kornin. Stundin er stutt. Svo róast hópurinn. Hann stendur kyrr og fylgist með fuglunum sínum. Þær spökustu berjast um lófann með síðustu kornunum. Ein situr á derhúfunni og tvær á öxlunum. Síðan gengur gamli maðurinn að dyrum sínum og þær kjaga á eftir og hann hverfur inn í hádegisgrautinn. Smám saman fljúga þær burtu hver af annarri, eitt til tvö hundruð dúfur sem áttu sér skjól víða um bæ. Í yfirgefnum skúrum, á síldarbraggaloftum, í kirkjuturninum – þar sem smjúga mátti inn um rifu eða gluggaop átti fugl friðarins og tákn heilags anda athvarf – þangað til neglt var fyrir og skítnum mokað út.

Sagan – fyrr og nú

Elstu heimildir um dúfur á Siglufirði eru frá fyrstu árum síldarævintýrisins svonefnda. Ómar Landmark segir frá dúfum á lofti Landmarkshúss (við Hafnargötu) á bernskuárum sínum þar, 1950-60. Og norskur afi hans, Johan Landmark, hafi haft þær með sér frá Noregi þegar hann fluttist til Siglufjarðar um 1910.[3]

Síðustu áratugina (1970-2010) hafa bræðurnir Pétur og Ólafur Guðmundssynir gætt dúfnanna í bryggjuhúsi gömlu Njarðarstöðvarinnar. Gefið þeim daglega og haft stjórn á viðkomu þeirra. Lengst af um 40-65 að tölu. Nú þegar þetta gamla síldarhús hefur verið rifið eiga þær nýtt aðsetur í Ásgeirsskemunni, syðst á lóð Síldarminjasafnsins. Þar tóku starfsmenn safnsins við þeim í innréttuðu herbergi upp á loftinu, „dúfnasvítunni“ – og fyrir tveimur sumrum var þar utan við smíðaður sérstakur fóðurpallur þar sem góðhjartaðir bæjarbúar færa þeim daglega brauð og korn.

Þótt sumir amist við þessum blessaða fiðurfénaði og hafi trúað áróðrinum um að dúfur séu ,,rottur himinsins” þá er full ástæða til að dúfurnar njóti áfram verndar og fóðurgjafa. Og ekki eru nein vandræði að finna þeim nokkrar málsbætur: fáir fuglar éta eins ,,hreint” fæði. Þær eru fallegar í augum margra  og börnum þykir yfirleitt vænt um þær. Dúfur eru eitt helsta torgtákn margra borga útí heimi – og við sem erum stolt af torginu okkar á Siglufirði – einu af fáum bæjartorgum landsins! – eigum náttúrlega að ala þær á torginu og undirstrika það að Siglufjörður var lengi kallaður höfuðborg (síldarinnar) og hefði enn nokkuð alþjóðlegt yfirbragð eins og áður.

[1] Sverrir Júlíusson þáverandi starfsmaður Áhaldahúss Siglufjarðar.
[2]  Björn Valdimarsson þáverandi bæjarstjóri.
[3] Ómar Landmark Ingimundarson (býr í Noregi).

Myndir: Mikael Sigurðsson og Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is og Örlygur Kristfinnsson.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is