Nú er það Gránufélagshúsið


Herhúsfélagið gerir það ekki endasleppt. Sem kunnugt er var það stofnað í maí árið 1999 af nokkrum áhugamönnum um myndlist, í því skyni að koma upp gestavinnustofu á Siglufirði fyrir innlenda og erlenda listamenn. Hjálpræðisherinn gaf félaginu samkomuhús sitt við Norðurgötu 7b sem þá hafði ekki verið í notkun í allmörg ár. Og framhaldið er lýðum kunnugt.

En nú á að ráðast í annað verk, öllu stærra. Það er Gránufélagshúsið, að Tjarnargötu 8, austan við Olís, afar lúið en þó tignarlegt á að horfa.

Skömmu fyrir jól bárust félaginu uppmælingateikningar og tillaga arkitekts, Jon Nordsteien, að útliti hússins eftir viðgerð, auk þess sem saga þess var þar rakin í stórum dráttum, og hefur Siglfirðingur.is fengið leyfi til að birta þetta allt hér.

Þar segir:

Gránufélagshús, Tjarnargötu 8, Siglufirði.

Uppmælingateikningar, greinargerð og tillaga að útliti hússins eftir viðgerð, desember 2010.

Aðdragandi

Húsið var skoðað og mælt 12.-13.
nóvember 2010. Tilgangurinn var að búa til teikningar sem geta myndað
grundvöll fyrir ákvörðunartöku um viðgerðir og endurbætur.

Verkkaupi er Herhúsfélagið, Norðurgötu
7b, 580 Siglufirði, kt. 580599-3389, c/o Hálfdán Sveinsson,
halfdan@simnet.is, s. 8999632 / 4671131.

Byggingarlýsing

Húsið er bárujárnsklætt, grindarbyggt timburhús á steyptum kjallara, reist 1908. Kjallarinn er niðurgrafinn um 60-80 cm.

Undir bárujárninu á útveggjum er
upprunaleg listaklæðning. Undirborð eru 1¼ x 8″ / 30 x 190-210 mm sett
upp með nánast engu bili á milli borðanna. Listar eru 1 x 3″ / 22-25 x
67-70-75 mm óstrikaðir. Undirborð á hornunum eru sett upp þannig að
undirborðið á gaflinum liggur utaná undirborðinu á langhliðinni.
Vatnsbretti við sökkul er 2 x 4″ / 45 x 95 mm. Vindskeiðar eru 32 x 190
óstrikaðar. Kantborð undir þakskeggi á langhliðum er ca. 15 cm breitt og
blikkklætt.

Gluggar eru “funkisgluggar” með
tveimur hæðarpóstum og einu opnanlegu fagi, staðsettu vinstra megin á
vesturhlið og hægra megin á austurhlið, undan ríkjandi vindátt. Karmmál
er bxh ca. 104 x 90 cm, en á suðurgafli bxh ca. 130 x 90 cm. Gluggar eru
settir í með blikkflasningum að ofan og neðan en járnið er neglt beint í
karm á hliðum.

Inni í útveggjagrind á austurhlið ca.
1,35 m frá norðausturhorni er gluggakarmur sem getur verið upprunalegur.
Það er einpósta gluggi með innanmál karms bxh 63,7 x 90 cm (karmmál ca.
72,7 x 99 cm). Pósturinn er 2″, rúnnaður að innan og málaður grár.

Á þakinu er gamalt tvískipt bárujárn, líklega upprunalegt (merkt enskum framleiðanda).

Útveggir og gólf á neðri hæð er steypt. Gólfið er 60-80 cm lægra heldur en jarðvegur í kringum húsið. Veggjaþykkt er um 30 cm.

Gólf yfir neðri hæðinni er úr timbri
með 4×5″/5×5″ gólfbitum sem liggja á 6×6″ langbita og 5×5″ stoðum. Nyrst
í kjallara er búið að klæða bita af í lofti og veggir hafa verið
múrhúðaðir. Það er sennilega sölubúðin sem sagt er frá í úttektinni. Hún
hefur verið ca. 6,6 x 5,25 m. Milliveggurinn er horfinn.

Útveggjagrindin á efri hæðinni er með 5×5″ fótstykki og stoðum, en syllan er 5×6″ liggjandi.

Allri hæðinni hefur verið breytt í
verbúð um eða eftir stríð. Veggir og loft eru plötuklæddir, hurðir úr
krossvið og gólfborð eru mjó. Gólfi og gólfbitum hefur verið lyft til að
auka lofthæð. Gólfbitar eru ýmist 3×7″ í norðurhelmingi hússins og 7×7″
í suðurhelmingnum og eru boltaðir í sperrurnar.

Sperrur eru ýmist 4×5″ eða 5×6″.
Þakjárnið er neglt á 2×4″ lektur sem liggja ofaná sperrunum, 6 stk. á
austurhlið og 5 stk. á vesturhlið. Gaflveggir eru óklæddir að innan. Á
göflunum eru hlerar. Fyrir ofan hlerann á norðurgafli, sést að
innanverðu gat í klæðningu eftir gálga.

Stærðir

Grunnflötur hússins er 7,21 x 18,83 m
og brúttó flatarmál 135,8 m2. Hæð að mæni er 7,50 m og að þakkanti 4,60 m
mælt frá kjallaragólfi.

Rúmmál hússins er 821,6 m3.

Brúttó flatarmál

rishæð

aðalhæð

kjallari 

samtals                 

br.gr.fl.

120,5 m2

135,8 m2

135,8 m2

392,0 m2            

br.gr.fl. sh>1,8 m

33,9 m2

135,8 m2

135,8 m2

305,5 m2

Ástand

Lítill sem enginn fúi sést í
útveggjagrind eða klæðningum, enda loftar vel um húsið. Á þakinu er
gamla upphaflega bárujárnið. Það er götótt og snjór fýkur inn sem leiðir
til fúa í gólffjölum á háalofti. Neglt er fyrir alla glugga í kjallara
og á austurhlið á efri hæð.

Kjallaraveggir eru sprungnir og
ónýtir, líklega er engin járnabinding í þeim. Gert hefur verið stórt op í
kjallaravegg á norðurgafli og þar hefur timburgrindin sigið. Annars
virðist húsið rétt og beint, án sigs eða skekkju. Líklega eru
kjallaraveggir byggðir á gamla fjörukambinum sem drenar vel og er
traustur.

Brunavirðing dags. 28. nóv. 1916:

?Verzlunarhús byggt úr timbri. Byggt
1908. 1 hæð með háu risi. Hár steinsteyptur kjallari undir því öllu, að
mestu ofanjarðar. Verslun eftir ósk umsóknar minnar á 3500. Herbergi í
kjallara: 1 sölubúð, 1 skrifstofa, 2 pakkherbergi, ditto á neðstu hæð:
Óinnréttað notað til geymslu á ýmisskonar vörum. Uppi óinnréttað: Notað
til geymslu. Eldstæði: 1 ofn. Notað aðeins til verslunar. Raflýsing og
vatnsleiðslur. 18,9 x 7,2 x hæð 6,9 tala glugga 15.?

Í brunavirðingunni er hæð hússins sögð
vera 6,9 m. Nú mælist húsið 6,6-6,8 m hátt frá jarðvegi utanhúss að
mæni (hæð frá kjallara-gólfi að mæni er 7,50 m). Með öðrum orðum hefur
kjallarinn verið niðurgrafinn um 60-80 cm alla tíð.

Lýsing á upprunalegri gerð hússins m.v. gömlu myndirnar

Til eru gamlar myndir af húsinu frá
því áður en það var innréttað sem verbúð og gluggaskipan breytt. Ekki er
vitað nákvæmlega hvenær myndirnar voru teknar, nema að myndir Vigfúsar
Sigurgeirssonar eiga að vera frá tímabilinu 1925-1938. Kirkjan var reist
á árunum 1931-1932 og sést á sumum myndum en ekki öðrum.

Af gömlu myndunum sést að kjallararinn
er steyptur, á útveggjum er listasúð og gluggar eru sexrúðugluggar með
hefðbundnum frágangi. Gluggaskipan er óregluleg, gluggar á aðalhæð sitja
ekki beint fyrir ofan kjallaraglugga á austurhlið og opin í
kjallaraveggnum eru mismunandi að stærð, sum með gluggum, önnur með
hlerum. Meiri áhersla hefur greinilega verið lögð á notagildi heldur en
fagurfræði.

Gluggaskipan var upprunalega þannig að
á suðurgafli var einn sexrúðugluggi í miðju á hverri hæð, á vesturhlið
einn sexrúðugluggi í miðju á aðalhæð en engin glugga- eða hurðarop í
kjallaranum. Á austurhlið voru á aðalhæð 3 gluggar og ein hurð með
trétröppum. Í kjallaranum austanmegin voru (talið frá suðri til norðurs)
tveir gluggar, hurð og svo breiðara dyraop. Ekki sést hvort það er
gluggi undir tröppunum.

Norðurgaflinn sést bara á einni mynd,
en frekar óljóst. Helst lítur út fyrir að það hafi verið pakkhússhurð á
rishæð, hurð eða gluggi í miðju fyrir neðan og annar gluggi til hægri
við hann.

Skv. brunavirðingunni voru 15 gluggar í
húsinu. Myndirnar sýna 1 glugga á vesturhlið, 3 á suðurgafli, 5 á
austurhlið, eða 6 ef það er gluggi undir tröppunum, samtals 9-10
gluggar. Þá hljóta að hafa verið amk. 5 gluggar á norðurgaflinum. Sjá
tilgátuteikningar af útliti hússins.

Glugginn sem fannst inni í útveggnum á austurhlið sést ekki á myndunum og hlýtur að vera seinni tíma breyting.

Breytingar sem gerðar hafa verið

Útlit hússins er mikið breytt frá
upphafi. Efri hæð og ris er klædd bárujárni og gluggar og staðsetning
þeirra er mikið breytt. Í kjallaranum hefur glugga á suðurgafli verið
breytt í hurð og glugga og dyraopi á norðurgafli breytt í stóra hurð.
Hinsvegar virðist op í kjallaravegg á austurhlið vera nokkurn veginn
eins og var, sbr. gömlu myndirnar.

Mynd frá um 1960 sýnir skúrbyggingu
við suðurgafl, en það skýrir af hverju gluggar á efri hæð til suðurs eru
svo hátt frá gólfi (1,18 m), þeir hafa þurft að sitja fyrir ofan þakið á
skúrnum.

Húsinu breytt í verbúð – hvenær?

Húsinu var breytt í verbúð um eða
eftir stríð ? eftir efnisnotkun að dæma. Innréttingar á aðalhæð virðast
skipulagðar fyrirfram með 12 tveggja manna svefnherbergjum og
eldhúsaðstöðu sunnanmegin. Inngangur var um hurð á vesturhlið við
suðvesturhorn hússins, en ekki er vitað hvernig stigahús eða útitröppur
voru. Ekki sjást merki um bað- eða salernisaðstöðu innanhúss, allavega
ekki á aðalhæð. Gólfi yfir aðalhæð var lyft um 30 cm, en lofthæðin var
áður um 2,0 m. Settir voru nýir gluggar á aðalhæðina og útveggir
væntanlega klæddir bárujárni um leið. Staðsetningu glugga var breytt án
tillits til eldra gluggafyrirkomulags og uppbyggingar
útveggjagrindarinnar, en það hlýtur að hafa haft talsverðar breytingar í
för með sér.

Tillaga / hugmynd að útliti hússins eftir viðgerð

Hjálagðar eru teikningar af tveimur hliðum hússins sem sýna húsið eins og það getur litið út eftir viðgerð.

Tillögurnar eru miðaðar við
upprunalega gerð hússins, en gluggum hefur verið fjölgað og settur er
inngangur með útitröppum á suðurgaflinn. Stærð glugga er eins og gamli
gluggakarmurinn sem fannst inni í vegg, með karmmál 73 x 99 cm.
Frágangur utanhúss verður hefðbundinn og lagt er til að húsið verði
aftur klætt listasúð.

Hugsanlega væri hægt að setja
þakglugga á austurhlið hússins, en það er háð því hvernig fyrirkomulag
verður innanhúss. Hugmyndin er að nota húsið sem vinnuaðstöðu og íbúðir
fyrir listamenn.

Kjallarinn er ónýtur og verður að
endursteypa hann að öllu leyti. Spurning er hvort hann eigi allur að
vera ofanjarðar og hvort æskilegt væri að hafa meiri lofthæð heldur en
nú. Það getur leitt til óæskilegra útlitsbreytinga á hlutföllum í
húsinu.

Teikningaskrá

Uppmælingateikningar

1 Grunnmynd kjallara 1:50

2 Grunnmynd aðalhæðar 1:50

3 Grunnmynd rishæðar 1:50

4 Sneiðing 1:20

5 Útlit norðurgafls 1:50

6 Útlit suðurgafls 1:50

7 Útlit vesturhliðar 1:50

8 Útlit austurhliðar 1:50

Tillaga / hugmynd að útliti hússins eftir viðgerð

9 Útlit suðurgafls 1:50

10 Útlit austurhliðar 1:50

Desember 2010

Jon Nordsteien arkitekt mnal

jon.nordsteien@simnet.is / 8997873

Við þetta er að bæta, að Herhúsfélagið er sjálfseignarstofnun; öll þau sem koma að starfi á þess vegum eru að vinna sjálfboðavinnu til að gera samfélagið okkar betra. 

Fyrir þau sem áhuga kynnu að hafa á að gerast félagar og leggja þannig hönd á plóginn, er auðveldast að senda póst á herhusid@simnet.is eða kíkja á http://www.herhusid.com og fikra sig áfram þar.

Árgjaldið er ekki nema 1.500 krónur. En umbunin hins vegar ríkuleg.

Hér koma svo uppmælingateikningarnar og annar fróðleikur úr greinargerðinni.

Og svo er hér að lokum mynd af Gránufélagshúsinu eins og það leit út 22. október 2010.

Forsíðumynd og inngangstexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Greinargerð: Jon Nordsteien arkitekt.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is