Nú er hvasst


Nú er hvasst í Siglufirði, en ofankoma lítil. Ófært er þó beggja vegna. Vestan Strákaganga eru þessa stundina, kl. 15.30, um 30 m/sek, um 40 m/sek í hviðum, í Héðinsfirði 25 m/sek, 32 m/sek í hviðum, og á Múlavegi 27 m/sek, 36 m/sek í hviðum.

Snúrustaur úr járni í ónefndum garði hér í bæ brotnaði við jörð um hádegisbilið í einni vindhviðunni en annars hefur lítið frést af afleiðingum veðurofsans í firðinum. Rafmagn fór jú eitt andartak en hefur haldist inni eftir það.

Í skeyti sem var að berast miðlinum frá Rarik segir orðrétt: „Aðgerðum í Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði er lokið og er ekki von á frekara rafmagnsleysi vegna þessa. En ennþá er bilun í gangi á Svarfaðardal austur og unnið að viðhaldi á Svarfaðardal vestur. Nánari upplýsingar veitir Svæðisvakt RARIK Norðurlandi í síma 528 9690 og kort af svæðinu má sjá á www.rarik.is/rof.“

Nú er bara að sjá hvort eitthvað gerist kl. 17.00, þegar rauða viðvörunin tekur gildi. Björgunarsveitin og aðrir eru í viðbragðsstöðu.

Myndir: Mikael Sigurðsson.
Texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]