Nóg að gera hjá Raffó


Siglfirðingur.is frétti af því að þessa dagana væri Raffó með 6-7 rafvirkja í fullri vinnu og hafði því samband við Aðalstein Þ. Arnarsson og spurði hverju þetta sætti, í ekki stærra bæjarfélagi.

?Jú, þetta er m.a. út af því að flutningskerfi Rarik á rafmagni til heimahúsa í Siglufirði hefur fram til þessa verið tvennskonar,? segir Aðalsteinn. ?Gamla kerfið svokallaða er 220V kerfi. Þar gátu menn fengið 3fasa 220V milli fasa inn í hús og því notað mótora og annað sem krafðist 3fasa. Síðan voru tveir af þessum þrem notaðir fyrir tengla og ljós. Síðan var talað um einfasa 220V sem var algengast í húsum. Þá komu tveir fasar inn í hús, spennumunur milli fasa 220V og frá hvorum fasa fyrir sig til jarðar 130V. Þetta þykir ekki boðlegt í dag en er í stórum hluta bæjarins. Rarik er því að breyta flutningskerfi sínu í 3X400Volt og núll, þ.e. 3~N 400/230V. Þá eru 3 fasar og spennumunur milli þeirra 400V en fasi á móti núlli (jörð) 220V. Þetta er þannig í nýrri hluta bæjarins og í flestum fyrirtækjum. Í töflum í dag eru tvö öryggi á grein, en eftir breytingu verður bara eitt öryggi og hinn endinn tengdur í núll (jörð). Notandinn fær samt sem áður 220-230V í sín ljós og tengla. Þetta er svona smá útskýring á því sem er verið að gera.?

 

Þetta fer þannig fram að Rarik sér um að skipta um stofn inn í hús þar sem það þarf og sér síðan um spennubreytinguna í töflunum fólki að kostnaðarlausu. Rafvirkjar frá Raffó ehf. sjá um þessar breytingar fyrir Rarik, og þar er einmitt komin að hluta til skýring á fjölda þeirra núna. Þeir taka eina öryggjaröð úr töflunni og setja núllskinnu í staðinn, litamerkja víra í töflu og yfirfara spennujöfnun vatnsinntaka og síðan er skipt um mæli. Eftir að skipt hefur verið um mæli þarf aldrei að lesa af. Sérstakur sendir verður í mælinum sem sendir þráðlaust aflestur til Rarik.

Í viðbót við þetta er alltaf að fjölga skipum hér í útgerð, sem kallar á að öflug sveit rafvirkja sé ávallt tilbúin. 

 

Aðalsteinn Þ. Arnarsson.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is