Nóbelsverðlaunahafi kom til Siglufjarðar


Í vikunni var tilkynnt að sænska ljóðskáldið Tomas Tranströmer hljóti bókmenntaverðlaun Nóbels í ár. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að Tomas hefði komið til Siglufjarðar fyrir sextíu árum.

Við eftirgrennslan á Tímarit.is mátti finna að þegar Tomas tók við bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs vorið 1990 sagði Matthías Johannessen ritstjóri og ljóðskáld frá því í Morgunblaðinu að Ísland hefði verið ?fyrsta útlandið sem hann heimsótti. Hann sagði mér að einhverjir ættingjar hans hefðu verið í síldarbransanum og á þeirra vegum komst hann til Siglufjarðar. Það var sumarið 1951. Ferðin til Íslands frá Gautaborg kostaði lítið því að þeir fóru með íslenzkum síldarbát sem flutti tunnur til Siglufjarðar. Tranströmer var tuttugu ára og hafði birt tvö ljóð á prenti. Hann var sem sagt upprennandi skáld. Félagi hans, Sven Lindqvist, nítján ára, var með í ferðinni. Það var vitlaust veður í Gautaborg þegar þeir lögðu úr höfn og skáldið unga neitaði að taka sjóveikitöflur félaga síns. Hann var aðframkominn af sjóveiki og lá á fjórum fótum á dekkinu þegar íslenzkur sjóari aumkvaðist yfir hann og flutti hann í koju. Þar lá hann svo … Svo er komið til Siglufjarðar. Þaðan til Akureyrar og Mývatns … Síðan haldið til Reykjavíkur og aftur heim til Svíþjóðar með Drottningunni.?

Þess má geta að í janúar 1947 sótti Ásgrímur Sigurðsson skipstjóri nýjan ?Svíþjóðarbát? til Gautaborgar, Sigurð SI 90. Ferðin til Siglufjarðar tók þá fimm sólarhringa.

Tomas Tranströmer.

Mynd: Fengin af Netinu.

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is