Njólinn fjarlægður úr Langeyrarhólmanum


Langeyrarhólminn, sem gerður var í mars árið 2004 (sjá nánari umfjöllun um tilurð hans á Siglfirðingi.is 9. október í fyrra), er orðinn fastur punktur í lífi margra fuglategunda hér, einkum á vorin og sumrin, og ekki síður hafa margir bæjarbúa og gesta ánægju af að fylgjast með honum. Á sínum tíma voru ýmsar trjá- og runnategundir settar þar niður til að veita skjól og prýða, og lifir flest af því enn.

Ein planta óvelkomin, njólinn, fann sér að auki rótfestu þar er dagar, vikur og mánuðir liðu – enda er hann þarna skammt frá og hefur náð að vaxa upp af aðkomnum fræjum – og hefur síðan verið hægt og bítandi að yfirtaka þessa nýlendu og paradís og spilla ásýnd hennar.

En það landnám var hins vegar stöðvað – í bili a.m.k. – á fimmtudag í nýliðinni viku, 22. september, þegar vaskir sveinar garðyrkjudeildar bæjarfélagsins, undir forystu Vals Þórs Hilmarssonar garðyrkjustjóra og umhverfisfulltrúa, réðust þangað út með skóflur af vopni.

Fara þurfti tvær ferðir í land með afraksturinn þar sem honum var fargað á viðeigandi hátt.

Ljósmyndari fylgdist með.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is