Nikulás


Á http://www.nikulas.is rekur Ægir Ólafsson aðdragandann að stofnun Nikulásarklúbbsins í Ólafsfirði og  útskýrir hvers vegna stuðningsmannafélag Leifturs fékk þetta heiti. Þar segir:

Árið 1987, þann 11. september, spilaði Leiftur hreinan úrslitaleik við Þrótt Reykjavík um sæti í efstu deild. Mikil spenna ríkti fyrir síðustu umferðina og allur aðdragandinn var dramatískur. Þróttarar færðu þennan leik af Valbjarnarvelli yfir á eigin grasvöll við Sæviðarsund.

Gríðarlegur áhugi og stemming var í Ólafsfirði fyrir þennan leik og er talið að á föstudeginum hafi um helmingur bæjarbúa lagt land undir fót og farið til höfuðborgarinnar.

Til marks um þennan mikla ?fólksflótta? hringdi ein útvarpstöðvanna í frystihúsið til þess að taka viðtöl við fólk en það voru aðeins fjórir að vinna. Já, því allir hinir voru mættir á Þróttaravöllinn til að taka þátt í þessum magnaða leik, sem er að mínu áliti er ein stærsta og merkilegasta stund í knattspyrnusögu Leifturs.

Þarna var Leiftur, undir stjórn Óskars Ingimundarsonar, að gera það sem fáir höfðu reiknað með, liðið var búið að príla upp úr neðstu deild og upp í þá efstu á mettíma.

Og það var ekki að spyrja af því, gríðarleg uppsveifla varð í knattspyrnunni í Ólafsfirði, og mikil stemming meðal bæjarbúa, og við sjómennirnir frá Ólafsfirði tókum að sjálfsögðu fullan þátt í þessu. Þegar þarna var komið sögu snerist bæjarlífið að miklu leyti um knattspyrnu, allir töluðu um leikina og allir héldu með Leiftri, hvað annað?

En aftur að stóra deginum. Fyrir þennan leik voru mörg viðtöl í útvarpinu við menn frá báðum aðilum, og þar á meðal var viðtal við fyrirliða Þróttar, Nikulás Jónsson. Í þessu viðtali lýsti hann draumi sem hann dreymdi nóttina áður og hann túlkar þennan draum þannig að Þróttur myndi vinna leikinn og lýsir mörkunum 2-1, og ýmislegt fleira kom þarna fram sem allt staðfesti það að Þróttur ynni leikinn (hvað annað, maðurinn er Þróttari).

Það besta við málið var að okkar menn hlustuðu á viðtalið og voru sem aldrei fyrr ákveðnir í því að kollvarpa öllum draumum Þróttara. Og þessum magnaða leik gleymum við Leiftursmenn aldrei; við sigruðum draumalið Þróttar 2-1 með mörkum frá Dadda (Halldóri Guðmunds) og Steinari Ingimundar. Það fór hins vegar hrollur um okkur þegar Þróttarar fengu vítaspyrnu. En Þorri Jóns sýndi og sannaði enn einu sinna að hann var einn besti markvörður landsins, þegar hann varði vítaspyrnuna með miklum tilþrifum.

Þegar dómarinn flautaði þennan leik af brutust út gríðarleg fagnaðarlæti hjá Ólafsfirðingum og menn föðmuðust um allan völl og eins og einn góður íþróttafréttamaður sagði: ?Meira að segja hundurinn brosir út að eyrum? (þannig var að mitt í öllum fagnaðarlátunum rölti hundur í rólegheitum inn á völlinn og tók þátt í gleðinni; hvort hundurinn var að norðan veit ég ekki, en hann var glaður!).

Leiftur var kominn í efstu deild í fyrsta skipti í sögu félagsins og fagnaðarlætin héldu áfram næstu daga og vikur. Ólafsfirðingar voru glaðir og stoltir af því að vera Leiftursmenn- og konur. Bæjarstjórnin lofaði að ráðast í gerð grasvallar og stóð við það loforð, því um haustið tók Birna Friðgeirsdóttir, þáverandi forseti bæjarstjórnar, fyrstu skóflustunguna að nýja vallarsvæðinu.

Þann 26. desember 1987 héldu Leiftursmenn sitt fyrsta herrakvöld og var sá merki atburður haldinn í Sandhól. Meðal annars fór þarna fram uppboð mikið þar sem boðið var í aðgöngumiða nr. 1.: Leiftur í 1. deild. Hörð rimma varð um miða þennan en að lokum keyptum við nokkrir félagar af Sigurbjörgu ÓF gripinn á kr 70.000 – já, sennilega dýrasti miði á knattspyrnuleik á Íslandi!

Þegar hér er komið sögu hafði Nikulásarklúbburinn ekki enn verið stofnaður.

Leiftur spilaði í fyrstu deild sumarið 1988 en hafði ekki langa dvöl í efstu deild í þetta sinn. Liðið féll niður um haustið, en menn höfðu fengið bragð af því að spila meðal bestu liða landsins og metnaður var til staðar til þess að fara aftur með liðið upp í efstu deild. Það verk reyndist erfiðara en menn héldu og tók lengri tíma, en það hafðist loksins árið 1994 og enn og aftur var það Óskar Ingimundarson sem stýrði liðinu upp í efstu deild, og nú fór í hönd mesti uppgangstími knattspyrnurnar í Ólafsfirði.

Á þessum tíma frá haustdögum 1988 þegar Leiftur féll úr efstu deild og til þessa dags, haustið 1994 þegar liðið tryggði sér aftur sæti í efstu deild, voru búnar að vera miklar sveiflur hjá Leiftursmönnum niður í þriðju deild og síðan upp í þá efstu aftur.

Mitt í öllum þessum fótboltaárum, nánar tiltekið 12. júní 1990 héldum við nokkrir félagar um borð í frystitogaranum Sigurbjörgu ÓF 1. fund og ákváðum að stofna stuðningsmannafélag Leifturs. Skipið var þá statt á einum af gjöfulustu miðum við Ísland, Halanum, og það kom síðar í ljós að þetta félag átti eftir að verða happafengur fyrir Leiftur.

En það vantaði nafn á félagið og eftir ýmsar uppástungur kom einn félaginn með þetta: ?Munið þið ekki eftir NIKULÁSI, Þróttaranum? Þessum ?berdreymna? frá úrlitaleiknum 1987?? Auðvitað mundum við allir eftir honum og ákváðum að skíra klúbbinn Nikulás og þá myndi úrslitaleikurinn 1987 aldrei gleymast og nafnið ? það er flott!!!

NIKULÁS, já, klúbburinn skal heita NIKULÁS. Frábært, ekki satt?                

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is