Neongular húfur í myrkrinu


Foreldrafélag Grunnskóla Fjallabyggðar og  slysavarnadeildir  í Fjallabyggð gáfu á dögunum öllum nemendum skólans neongular húfur, finnskar. Þeim var fyrst skartað á degi sólarinnar, 28. janúar, þegar nemendur yngri deilda skólans við Norðurgötu á Siglufirði gengu upp að kirkjutröppum og sungu lög til að fagna því að sólin var á ný farin að varpa geislum sínum yfir bæinn eftir um 10 vikna hlé. Umræddar húfur eru prýddar endurskinsröndum og er það ástæða gjafarinnar, en börnin í Fjallabyggð mæta snemma morguns í skóla og því er nauðsynlegt að vera vel greinanlegur í myrkrinu svo bílstjórar sjái þau vel.

Foreldrafélag grunnskólans er afar öflugt og kemur að ýmsum fleiri málum sem varða skólann og börnin, útvegar t.d. iðulega fyrirlesara sem koma gjarnan með uppbyggilega fræðslu.

Á myndinni hér fyrir ofan, sem tekin var í gær á skólabalanum á Siglufirði, er hluti nemenda yngri deilda Grunnskóla Fjallabyggðar með húfurnar góðu.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is