Nemendur og kennarar úr MA heimsækja Siglufjörð


Nemendur í samfélagshluta Íslandsáfangans í Menntaskólanum á Akureyri fóru í gær í mikla safna- og upplýsingaferð til Siglufjarðar. Nemendur voru um 130 og 7 kennarar voru með í för. Farið var frá Akureyri snemma morguns í þremur stórum rútum og áð andartak í Héðinsfirði, þar sem nemendur upplifðu mínútuþögn eyðifjarðarins. Þaðan var ekið til Siglufjarðar og tekið til við störf.

Hver bekkur, en þeir eru 5 talsins, fór með kennara milli staða og var dvalið sem næst einni kennslustund á hverjum stað. Á Síldarminjasafninu í Roaldsbrakka kynntu Sverrir Páll Erlendsson og Valdimar Gunnarsson kennar í MA hópunum sögu síðdarkaupstaðarins og kynntu síldarsöltun og aðstæður verkafóksins á síldarárunum. Í bræðslusafninu Gránu var Örlygur Kristfinnsson, einn frumkvöðla að söfnunum á Siglufirði og safnstjóri, og gerði hópunum grein fyrir mjöl- og lýsisvinnslu og ýmsu fleira sem tók til síldarvinnslu og lífsins á staðnum. Í bátahúsinu var Rósa Húnadóttir þjóðfræðingur og safnvörður og leiddi hópana um bryggjur og báta og fræddi þá ennfremur um síldarárin. Í Þjóðlagasetri sr. Bjarna Þorsteinssonar tók Ingibjörg Ásgeirsdóttir bókasafnsfræðingur og kennari á móti hópunum með drykkjum og ástarpungum og fræddi þá um þjóðlagasöfnunina og íslenska þjóðlagamenningu. Í Siglufjarðarkirkju tók sr. Sigurður Ægisson á móti öllum hópunum saman og sagði frá þáttum úr sögu Siglufjarðar og sögu kirkna allt frá Sigluneskirkju hinni fornu til þeirrar miklu kirkju sem nú er á Siglufirði og var lengi stærst íslenskra mótmælendakirkna. Sturlaugur Kristjánsson tónlistarmaður var í för með sr. Sigurði og stjórnaði nemendum í almennum söng, og þar voru sungnar við raust tvær sjómannalagasyrpur. Uppi á kirkjuloftinu, þar sem nú er safnaðarheimili, fékk hópurinn aðstöðu til að setjast og borða nestið sitt um hádegisbil.

Allar móttökur á Siglufirði voru afar góðar og ánægja ríkti í nemendahópnum sem var að vísu tekinn að lýjast er leið á daginn. Örlygur Kristfinnsson hafði orð á því hver lyftistöng fyrir menningarlífið í bænum og marvísleg menningarsamskipti hin nýju jarðgöng væru, þessi dagur að vetri líktist að sumu leyti annamestu dögum sumarsins þegar erlend ferþegaskip kæmu til staðarins, og áður en lagt var af stað til baka voru viðraðar hugmyndir um samstarf seinna meir.

Lagt var af stað til baka samvæmt áætlun um klukkan 4 og komið að skólanum á ný á sjötta tímanum. Nemendur svöruðu jafnóðum á skoðunarstöðvunum spurningalista sem verður ásamt heimildum, bæklingum og myndum notaður til verkefna í áfanganum. Vel heppnaðri ferð er lokið og úrvinnslan er á næsta leiti.

Myndir: Guðjón H. Hauksson | gudjonster@gmail.com

Texti: Sverrir Páll Erlendsson | svp@ma.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is