Náttblinda – síðasti Siglufjarðarkrimminn kynntur


Ragnar Jónasson í Siglufirði 2012. Rithöfundurinn Ragnar Jónasson les í fyrsta sinn úr óútkominni spennusögu haustsins á Síldarævintýrinu í dag, föstudag, kl. 17.00 í Þjóðlagasetrinu. Bókin hefur hlotið nafnið Náttblinda og er fimmta og síðasta glæpasaga höfundar í Siglufjarðarsyrpunni sem hófst með bókinni Snjóblindu árið 2010.

Lögreglumaður á Siglufirði er skotinn með haglabyssu af stuttu færi í útkalli um miðja nótt. Sjúklingur er lagður inn á geðdeild í Reykjavík gegn vilja sínum. Ung kona flytur til Siglufjarðar á flótta undan ofbeldisfullum sambýlismanni. Þessir þræðir flettast svo saman í magnaða spennusögu þar sem ræturnar liggja í átakanlegum veruleika undir fáguðu yfirborðinu. Náttblinda, kemur út hjá bókaforlaginu Veröld í haust.

Þess má geta að einmitt í dag, 1. ágúst, kemur út í Bandaríkjunum smásaga eftir Ragnar, Party of Two, í smásagnasafni bresku glæpasagnasamtakanna, Guilty Parties. Í lok nóvember kemur svo út í Þýskalandi, hjá Fischer Verlage, kiljuútgáfa Siglufjarðarkrimmans Myrknættis, eða Todesnacht eins bókin kallast á þýsku.

Ragnar tekur í haust og vetur þátt í bókmenntahátíðum í fjórum löndum. Í september stýrir hann umræðum um alþjóðlegar vinsældir Agöthu Christie á hátíð tileinkaðri Agöthu í heimabæ hennar, Torquay, á Englandi, ásamt írska rithöfundinum Dr. John Curran. Í sama mánuði tekur hann þátt í umræðum um íslenskar glæpasögur, ásamt Yrsu Sigurðardóttur og Quentin Bates, á bókmenntahátíðinni Bloody Scotland í Stirling, og í nóvember tekur hann þátt í Bouchercon hátíðinni í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Í nóvember verður jafnframt haldin, í annað sinn, alþjóðleg glæpasagnahátíð í Reykjavík, Iceland Noir, sem Ragnar, Yrsa og Quentin settu á fót.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is