Nánar um húsaskiltin


Eins og lesa mátti hér 9. október síðastliðinn gaf Ytrahúsið-áhugamannafélag á Siglufirði nokkrum gömlum og sögufrægum húsum bæjarins vönduð, emaleruð nafnskilti þann 24. september. Þau voru gerð í Þýskalandi og hafði járnvöruverslunin Brynja í Reykjavík milligöngu um það. Um er að ræða hús í miðbæ Siglufjarðar sem notið hafa verulegra endurbóta og viðhalds á undanförnum árum, Sæbys hús, byggt 1886, Tynesarhús, byggt 1905, Ytrahúsið/Söluturninn, byggt 1905, Herhúsið, byggt 1914, Norska sjómannaheimilið, byggt 1915, Nýja Bíó, byggt 1924, og Apótekið, byggt 1930.

Ytrahúsið-áhugamannafélag hefur einnig styrkt önnur verkefni, t.d. Kvæðamannafélagið Rímu til kaupa á hljómtækjum fyrir flutning þjóðlaga úr turni Siglufjarðarkirkju og gerð upplýsingaskiltis við hlið minnisvarða um Hafliða Guðmundsson, fyrrum hreppstjóra, á lóð Þjóðlagasetursins.

Eftir sölu Ytrahússins í fyrra varð félaginu þetta gerlegt og er framtakið hugsað í þágu samfélagsins til að endurgjalda að einhverju leyti þann stuðning sem viðgerð Ytrahússins/Söluturnsins hefur notið. Þar er um að ræða stuðning frá Húsafriðunarsjóði ríkisins, Siglufjarðarkaupstað, Selvík ehf., Menningarsjóði Sparisjóðsins og mörgum fleirum.

Skiltin, sem eru mikil bæjarprýði, að ekki sem minnst á gildi upplýsinganna sem á þau hafa verið letruð, eru mjög í anda þeirra húsaskilta sem forðum tíðkuðust víða í þorpum og kaupstöðum landsins og eiga vafalaust eftir að vekja athygli þeirra sem framhjá þeim gera leið sína í komandi framtíð.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.
Fylgja: Úr Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is