Nálægt úrkomumeti

Siglufjörður

Sólarhringsúrkoman á Siglufirði í fyrradag, mánudag, mældist 130-140 millimetrar, eftir því sem fram kom á vefsíðu Veðurstofunnar, og sennilega ein sú mesta á landinu.

Trausti Jónsson veðurfræðingur var spurður hvernig þetta væri í samhengi við fyrri mælingar. Hann svaraði: „Mér sýnist þetta vera ívið meira en fyrir fjórum árum. Aftur á móti er þetta ekki það mesta sem vitað er um. Þann 1. október 2001 vantaði ekki mikið upp á 200 mm á sólarhring á Siglufirði (þá féllu 146 mm á tímann frá kl. 0 til kl. 24, en 200 frá kl. 9 þann 1. til kl. 9 þann 2.). Og fleiri tilvik eru ekki langt undan. Þann 10. ágúst 1982 mældust rúmir 190 mm á sólarhring (frá kl. 9 til kl. 9). En allt er þetta harla óvenjulegt.“

Aðspurður um nánari samanburð við flóðin 2015 svaraði hann: „Fyrir fjórum árum varð niðurstaðan sú, minnir mig, að meira hefði að tiltölu rignt í fjallinu við Hvanneyrarskál heldur en niðri við úrkomumælinn og þar gert meiri dembur. Úrkoma í þeirri hryðju varð samtals 176 mm á rúmum þremur sólarhringum, en núna hafa (til miðnættis á mánudagskvöld) mælst 248,4 mm á tæpum fimm dögum. Ákefðartopparnir eru svipaðir, um 11 mm á klst. þegar mest var og um 20 mm á 2 klst. í báðum tilvikum. Slík ákefð er ekki algeng á Siglufirði, en dæmi eru þó um meiri. En upp úr stendur að úrkoman, samtals, undanfarna daga hefur ekki oft mælst jafn mikil á Siglufirði.“

Sjá líka frétt Sjónvarpsins hér.

Frétt Siglfirðings um úrkomu og skriðuföll í ágúst 2015 er hér.

Siglufjörður

Forsíðumynd: Ingvar Erlingsson.
Aðrar myndir: Ingvar Erlingsson og Örlygur Kristfinnsson.
Texti: Jónas Ragnarsson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]