Myndlistarsýning Bergþórs Morthens og Paul Lajeunesse í Gallerí Rauðku


Á morgun, föstudaginn 29. júlí, opnar samsýning myndlistarmannanna Bergþórs Morthens og Paul Lajeunesse í Gallerí Rauðku. Sýningin opnar kl. 16.00 og opið verður yfir Síldarævintýrishelgina og eitthvað fram í ágúst.

Bergþór Morthens útskrifaðist frá Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2004 og flutti þá til Siglufjarðar. Hann hefur síðan unnið ötullega að list sinni og haldið bæði einka- og samsýningar, jafnt hér á landi sem erlendis.Paul Lajeunesse er mörgum Siglfirðingum að góðu kunnur en hann er bandarískur myndlistarmaður sem dvaldi á Íslandi sem gestalistamaður Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM) og í Herhúsinu á Siglufirði 2007-2008.

Þeir félagar hafa verið í góðu sambandi eftir að Paul hélt til Bandaríkjanna og hafa lengi ætlað sér að sýna aftur saman á Siglufirði. Það er nú komið að því og ekki amalegt að sýna á jafn fjölmennri hátíð sem Síldarævintýrið er og í eins skemmtilegu umhverfi og Gallerí Rauðka er.

Hér er um að ræða áhugaverða sýningu sem Siglfirðingar og gestir bæjarins ættu ekki að láta framhjá sér fara.

Hér má líta tvö verkanna á sýningunni.

Mynd og texti: Aðsent.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is