Mynd febrúarmánaðar


Þessi skemmtilega ljósmynd hér fyrir ofan er mynd febrúarmánaðar á Þjóðminjasafni Íslands. Ljósmyndari er Guðni Þórðarson. Um hana ritar Sverrir Páll Erlendsson, menntaskólakennari á Akureyri, eftirfarandi skýringartexta:

„Skólabalinn sunnan við Barnaskólann á Siglufirði var leikvöllur á sumrin. Mig minnir að Kvenfélagið hafi staðið fyrir þeirri starfsemi og eitthvað kom fröken Arnfinna handavinnukennari nálægt því. Ég man að henni var ekki skemmt þegar við vorum að klifra í leiktækjunum á skólabalanum í frímínútum á veturna. Þá barði hún skærum í gluggann á handavinnustofunni – og stundum brotnaði glerið. Fröken Arnfinna bjó reyndar í húsinu sem sést handan við girðinguna.

Þessi mynd er tekin skömmu eftir 1950 og hér erum við nokkrir krakkar að leika okkur og að sjálfsögðu með tunnur, hvað annað í síldarbænum? Tæplega trúi ég að það sem hér er smíðað séu krossar. Líklegra er að þetta séu sverð. Strákarnir flestir að smíða í smekkbuxum, vestum og skyrtum en stelpurnar eru að gera eitthvað allt annað í pilsunum sínum. Ég horfi dreyminn á meðan aðrir eru að atast.

Það má velta því fyrir sér hvers vegna var bæði leikskóli og leikvöllur í litlum kaupstað eins og Siglufirði. Venja var að börn færu einfaldlega út að leika sér.  Ef til vill hefur mæðrum þótt gott að vita af börnum í gæslu meðan þær skruppu í síld og ef til vill var þetta líka öryggisatriði þegar íbúatalan í bænum þrefaldaðist eða fjórfaldaðist árin sem stærstu tarnirnar voru í síldinni á sumrin. Má vera.

Ég man að við vorum ekkert hrifin af því að vera send í leikskóla. Barnagarðurinn var syðst í bænum, hét Leikskálar og þangað var farið í rútu, sem pabbi keyrði oft. Fyrir vikið var hann gerður að heiðursfélaga í Kvenfélaginu. Þarna sátu börn úti í alls konar veðrum og borðuðu sand með tréspöðum og ég man enn hvað fiskurinn gat verið bragðvondur. Og strax á fyrsta degi byrjuðum við að söngla:

„Ekki á morgun heldur hinn
hættir barnagarðurinn.“

Og hinn aðalsöngurinn var:

„Nú erum við á leiðinni heim, vollívollívollí vei,
í voða stórum rútubíl,
vollívollívollí vei,
og mamma stendur á Torginu.
vævævæ,
og tekur þar á móti okkur,
hæhæhæ.“

Sjá hér.

Mynd: Fengin af vef Þjóðminjasafns Íslands.
Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is