Músin sem breytti jólunum


Hér er rifjuð upp sagan um einn þekktasta jólasálm allra tíma sem á 200 ára afmæli í kvöld og hefur verið þýddur á meira en 300 tungumál.

 

Franz Gruber burstaði snjóinn úr dökku hári sínu er hann gekk inn í St. Nikola kirkjuna í Austurríki, 24. desember, 1818. Hann var kominn til að æfa á orgel kirkjunnar fyrir miðnæturguðsþjónustuna.

Franz settist við orgelið, opnaði það, steig á fótstigið og byrjaði að spila.

Ekkert hljóð heyrðist.

Rétt í því kom presturinn, Jósef Mohr, inn í kirkjuna. Organistinn sneri sér við.

„Jósef,“ sagði hann, „hvað hefur komið fyrir orgelið?“

Mennirnir lituðust báðir um bak við orgelpípurnar. Þar fundu þeir svarið. Hungruð mús í matarleit hafði þá um nóttina komist bak við pípurnar. Þar hafði hún nagað gat á leðurbelgina sem sjá orgelpípunum fyrir lofti. Lítið gat hafði gjörsamlega þaggað niður í þessu mikla orgeli. Og það einmitt nú á jólunum! Þeir horfðu hvor á annan.

„Er hægt að laga orgelið?“ spurði Franz.

„Nei, ekki fyrr en í vor,“ svaraði Jósef.

„En Jósef, hvernig er hægt að hafa miðnæturmessu án tónlistar?,“ spurði þá organistinn.

Mennirnir tveir stóðu þögulir og veltu fyrir sér hvað til bragðs skyldi taka. Jósef, ungi presturinn, rauf þögnina og sagði feimnislega:

„Heyrðu, Franz, ég hef samið kvæði.“

„Hvaða not höfum við af kvæði?,” spurði Franz.

Jósef varð ákafari, þegar hann svaraði:

„Jú, þú ert svo mikill hæfileikamaður á sviði tónlistar. Þú gætir samið lag við kvæðið og svo getum við sungið það við gítarundirleik.“

„Leyfðu mér að sjá kvæðið, Jósef, en ég veit ekki hvort ég geti samið lag við það fyrir miðnæturmessuna,“ sagði organistinn.

Jósef beið á meðan Franz las og Franz smitaðist af ákafa hans, greip hatt sinn og þaut mót kirkjudyrunum.

„Ég kem eins fljótt og ég get,“ hrópaði hann. „En ég er nú ekki eins viss með gítarinn. Fólk verður ekki hrifið af gítartónlist í kirkjunni.“ Og svo var hann rokinn á braut.

Franz gekk til næsta þorps, Arnsdorf, þar sem hann starfaði við kennslu. Heima í sínu eigin herbergi sem staðsett var fyrir ofan skólann, spilaði hann ýmis stef sem féllu að kvæði Jósefs. Að lokum ákvað hann að nota einfalda laglínu sem lét vel í eyrum. Hann tók gítarinn og flýtti sér til kirkjunnar. Þar biðu tólf drengir og stúlkur eftir að læra nýja jólasönginn.

Guðsþjónustan nálgaðist. Kirkjan var prýdd kertaljósum og grenigreinum. Fljótlega fóru kirkjugestir að tínast inn. Þeir heyrðu enga orgeltónlist og gengu hljóðlega inn eftir kirkjugólfinu. Fólk leit spyrjandi hvert á annað. Hvað hafði eiginlega komið fyrir orgelið?

Presturinn las úr Biblíunni og sagði frá fæðingu Jesú. Þegar hann lokaði Biblíunni gekk fram á pallinn lítill hópur barna ásamt prestinum og organistanum.

„Það kom smá óhapp fyrir orgelið í nótt,“ byrjaði Jósef. Hann beið þangað til kliðurinn hafði dáið út.

„En við höfum samt dálitla jólatónlist í ár.“

Og við gítarundirleik hófu þeir Jósef og Franz að syngja jólasálminn, „Stille Nacht! Heilige Nacht!,“ sem við hér á Íslandi þekkjum betur undir nafninu „Heims um ból.“ Þessi sálmur er fyrir löngu orðinn þekktur um alla jörðina og er orðinn óaðskiljanlegur hluti af jólahátíðahöldunum. En það vita ekki allir að kveikjan að honum var lítil, hungruð mús.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]