Munum eftir smáfuglunum


Það er kalt fyrir norðan þessa dagana og verður fram í næstu viku. Snjór er yfir öllu og ofankoma í kortunum. Er fólk því eindregið hvatt til að gauka einhverju að smáfuglunum, þeir eiga erfitt með að finna eitthvað annað í þessum jarðbönnum.

Fyrir þresti og fleiri tegundir má setja út kramda og saxaða afganga af næstum öllum mat og séu tré í görðum er ágætt að festa epli og perur á kvisti eða greinar eða setja á nagla, sem búið er að koma fyrir á hentugum stöðum þar. Þannig hverfa ávextirnir síður undir fönn, auk þess sem kettir eiga erfiðara með að næla sér í bráð. Hafi gleymst að kaupa epli, eða ef frost er mikið, hefur undirritaður bjargað sér á að gera eggjaköku og setja í hana brauðmola, ostafganga og þvíumlíkt.

Fyrir snjótittlinga og dúfur er kornmeti (maískurl, heilhveiti og þvíumlíkt) vel þegið, sem og brauðmolar.

Auðnutittlingar þiggja smærri fræ (birkifræ, chiafræ, finkufóður, páfagaukafóður, hirsi o.s.frv.) og sólblómafræ.

Og fyrir þau sem gefa hrafninum étur hann flest sem býðst, ekki síst feitmeti.

Best er að dreifa matnum um svæðið, til að sem flestir geti nýtt sér. Í heimi fuglanna er það nefnilega stundum eins og víðar, að sá frekasti hrekur aðra í burtu, ef naumlega og þröngt er skammtað.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]