Múlagöngin sprungin


?Eftir að stórviðburður hefur orðið í sögu Fjallabyggðar er einangrun
litlu sjávarþorpanna nú formlega lokið,? segir í áhugaverðri grein eftir
Guðmund Karl Jónsson í Morgunblaðinu í dag. Þar fjallar hann um nauðsyn
þess að ráðast í að gera tvíbreið göng vestur úr Siglufirði og austur
úr Ólafsfirði.

Greinin er orðrétt á þessa leið:

?Eftir að stórviðburður hefur orðið í sögu Fjallabyggðar er einangrun litlu sjávarþorpanna nú formlega lokið. Greinarhöfundur óskar öllum íbúum sveitarfélagsins til hamingju með þessa samgöngubót sem tryggir öruggara vetrarsamband milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar þótt meira vanti upp á til þess að Fjallabyggð losni eins fljótt og hægt er við tvo einbreiða flöskuhálsa í utanverðum Fljótum og Múlagöngin sem eru allt of langt frá Dalvík. Það er til háborinnar skammar ef íbúar sveitarfélagsins sitja áfram uppi með einbreið veggöng sem sem nú eru sprungin vegna mikils álags. Þetta þola göngin ekki þegar vonlaust verður fyrir heimamenn að sækja vinnu í næsta kauptún.

Sunnan Múlaganganna og vestan Strákaganganna er slysahættan nógu mikil til þess að aurskriður geti fljótlega eyðilagt alla vegtengingu Fjallabyggðar við landsbyggðina um ókomin ár án þess að allir þingmenn Norðlendinga hafi áhyggjur af því hvaða afleiðingar einangrun sveitarfélagsins getur haft fyrir heimamenn. Með opnun Héðinsfjarðarganga er þessi einangrun að hluta til rofin.

Sá sem hér stingur niður penna sendir þingmönnum Norðvestur- og Norðausturkjördæmis, sveitarstjórn Fjallabyggðar og öllum heimamönnum skýr skilaboð um að þeir standi saman og berjist fyrir nýjum og tvíbreiðum jarðgöngum 3 km norðan Dalvíkur og undir Siglufjarðarskarð. Eftir öðrum leiðum verður aldrei komið í veg fyrir einangrun sveitarfélagsins við landsbyggðina. Útilokað er að Héðinsfjarðargöngin geti það ein og sér þegar jarðsig, snjóflóð, aurskriður og grjóthrun vestan Strákaganganna og sunnan Múlaganganna halda áfram að hrella vegfarendur. Uppsetning snjóflóðavarnargarða kemur aldrei í veg fyrir að aurskriður eyðileggi allt vegasamband sunnan ganganna. Óþolandi er að íbúar Fjallabyggðar geti aldrei losnað við þessa einbreiðu flöskuhálsa næstu þrjá áratugina á meðan tvíbreið jarðgöng nær Dalvík og undir Siglufjarðarskarð eru ekki á vegaáætlun. Sunnan Múlaganganna hverfur slysahættan aldrei þó að þau verði breikkuð. Eftir það sem á undan er gengið veit enginn hvenær snjóflóð sem útilokað er að sjá fyrir getur kostað fleiri mannslíf í Ólafsfirði, Héðinsfirði og Skútudal við Siglufjörð.

Með tilkomu Héðinsfjarðarganga eru engar líkur á því að Eyjafjörður verði eitt samfellt atvinnusvæði sem nái frá Akureyri alla leið til Siglufjarðar á meðan allir þingmenn Norðlendinga hafa engan áhuga á tvíbreiðum veggöngum sunnan Múlaganganna. Þessar einbreiðu slysagildrur eyðileggja sameiningu Dalvíkur- og Fjallabyggðar fyrir fullt og allt. Það geta þingmennn Norðausturkjördæmis þrætt fyrir þegar þeim hentar. Á hverjum vetri lenda litlir fólksbílar hvað eftir annað í snjóflóðum sunnan Múlaganganna. Þarna hafa snjóflóð með stuttu millibili stöðvað umferð flutningabifreiða. Þá lenda allt of margir bílstjórar á þessu svæði í sjálfheldu þegar snjómokstur á veginum sunnan ganganna er óframkvæmanlegur vegna blindbyls.

Einangrun Fjallabyggðar við landsbyggðina næstu áratugina er vel hægt að stöðva ef heimamenn í öllum sveitarfélögunum á Eyjafjarðarsvæðinu standa saman og halda til streitu kröfunni um að hraða undirbúningsrannsóknum á tvíbreiðum jarðgöngum nær Dalvík og milli Siglufjarðar og Fljóta. Óþolandi er að vilji þingmanna Norðvestur- og Norðausturkjördæmis hefur aldrei staðið til þess að íbúar nýja sveitarfélagsins á Tröllaskaga losni næstu 30 árin við báða flöskuhálsana sem bjóða upp á aukna slysahættu. Tímabært er að heimamenn bíði þess að ríkisstjórnin falli og safni undirskriftalistum til að stöðva einangrun Fjallabyggðar við byggðir Eyjafjarðar og Skagafjarðar. Auk heimamanna ættu allir þingmenn Norðlendinga að segja núverandi samgönguáætlun stríð á hendur og flytja um leið þingsályktunatillögu á Alþingi um að hraða framkvæmdum við tvíbreið veggöng í stað Múlaganganna og undir Siglufjarðarskarð. Víða á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsveit hafa allt of margir heimamenn áhyggjur af því að allir þingmenn Norðausturkjördæmis berjist gegn þeim og vilji frekar stytta vegalengdina milli Reykjavíkur og Akureyrar með vel uppbyggðum heilsársvegi í nærri 1000 m hæð um Kjöl eða Sprengisand. Allt árið um kring eykst hættan á einangrun Fjallabyggðar.?

Úr Múlagöngum.

Úr Strákagöngum.

Myndir og inngangstexti: Sigurður Ægisson | sae@sae.isMegintexti: Guðmundur Karl Jónsson.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is