Múlagöng eru barn síns tíma


Gagnrýni bæjarráðs Fjallabyggðar á störf lögreglunnar vegna umferðarstjórnunar við Múlagöng er ekki réttmæt, segir Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri Norðurlands eystra. Hluti vandans er samgöngumál frekar en að lögreglan sinni ekki sínu starfi.

Fyrr í sumar sendi Bæjarráð Fjallabyggðar kvörtun til Lögreglustjórans á Norðurlandi. Kvörtunin snéri að því að lögreglan hafi ekki stýrt umferð um Múlagöng í kjölfar lokunar á Öxnadalsheiði vegna banaslyss sem þar varð.

Lokunin á heiðinni varð þess valdandi að miklar umferðartafir urðu við göngin en viðlíka staða hefur komið upp um verslunarmannahelgar og á Fiskidaginn mikla. Bæjarráð skorar á lögregluna að sinna umferðarstjórn við göngin þegar þess er þörf. Halla Bergþóra, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, segir gagnrýni bæjarráðs ekki réttmæta.

„Nei við höfum alltaf þegar þetta hefur gerst sent lögreglumenn á staðinn og gert þetta eins vel og okkur er unnt. Það er nú kannski ekki hlutverk lögreglunnar að stýra umferð 24/7 við göng, það er ekki hægt að ætlast til þess enda enginn mannskapur til þess og ekki gert ráð fyrir því,“ segir Halla.

Halla bendir jafnframt á að umferð um svæðið hafi aukist og göngin anni varla þeirri umferð sem nú er enda ekki hönnuð fyrir hana. Þetta sé því að hluta til samgöngumál.

„Göngin þau anna þessu kannski ekki eins og þau áttu að gera og margt hefur breyst síðan Múlagöngin voru gerð. Þannig að þetta er eitthvað sem þarf að líta til framtíðar í sambandi við samgöngur og fjölgun ferðamanna og aukinni umferð um þetta svæði.“

Rúv.is greinir frá þessu.

Mynd: Sigurður Ægisson | [email protected]
Texti: Rúv.is / Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]