Mjölhús SRN rifið


Málmendurvinnslan Fura ehf., sem um daginn var að hreinsa upp járnarusl á
Öldubrjótnum og víðar, hefur nú tekið að sér að rífa niður gamalt mjölhús SRN skammt vestan Þormóðsbúðar. Það var reist árið 1936,
að því er kemur fram á heimasíðu Ramma, en var orðið ótraust og af því
mikil slysahætta.

Eldra mjölhús, steinsteypt, hafði áður verið byggt þar norðanvestan við, en því svo árið 1953 breytt í
frystihús, eftir að SR var tekið við Bæjarútgerðinni. Fram til þess tíma lönduðu siglfirsku togararnir eingöngu saltfiski hér, því engin
aðstaða var til að taka á móti ísfiski; honum þurfti að landa erlendis. Mjölhúsið, sem verið er að rífa, hafði verið reist fljótlega á eftir hinu til að auka geymslurými.

Stóra mjölhúsið er frá 1946.

Eftir að þessi viðbótarbygging hafði þjónað hlutverki sínu sem mjölhús, var hún notuð sem geymsla, en í kringum 1954, þegar skreiðarvinnsla hófst af miklum krafti, og hjallar spruttu upp út um allar trissur, var þar flokkuð og geymd skreið.

Þetta hélst meira að segja eftir að skuttogararnir komu hingað.

Síðustu
áratugina hefur húsið verið brúkað sem geymsla undir eitt og annað.

Reiknað er með að niðurrifið taki 5-6 daga. Það hófst í gær.

Það er eftirsjá að þessari byggingu, enda er hún dýrmætur partur útvegsáranna og hefur – eins og ýmislegt annað – verið minnisvarði um þau.

Þetta vekur upp spurninguna um það hvað beri að varðveita og hvað ekki.

Hver getur svarað því?

Fyrsta mjölhús SRN, á síðustu áratugum oftast þó nefnt Skreiðarhúsið.

Vélin tilbúin í slaginn.

Þetta er enginn smákrabbi.

Hér má sjá brot af því sem geymt hefur verið í húsinu undanfarin ár.

Mánudagur 23. ágúst. Niðurrifið hafið.

Þetta er snyrtilega unnið, það vantar ekki.

Og af fagmennsku.

Horft að norðanverðu.

Annað sjónarhorn.

Og enn annað.

Ein plata í einu.

Úr suðri.

Og svo ein panorama.

Þessi var staðan um hádegisbilið í dag.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is