Mikið varp í Sæhólma


Allir sumarfuglarnir okkar eru nú komnir í fjörðinn og margar tegundir byrjaðar að verpa. Óðinshaninn var síðastur til að heilsa upp á Siglfirðinga, hann sást í dag á Leirunum og austan flugbrautar.

Farið var í könnunarleiðangur út í Sæhólma í Langeyrartjörninni nú seinnipartinn. Þar var tjaldur með eitt egg, sem farið var að springa. Unginn er því væntanlegur í nótt eða á morgun. Síðast þegar farið var út þangað, fyrir um hálfum mánuði eða svo, voru eggin þrjú. Einhvers staðar hafa því tveir ungar verið í leynum í grjótinu.

Eitt grágæsarhreiður var þarna líka, en æður hafði verpt í það einu eggi að auki.

Hettumáfshreiður voru 10 og æðarhreiður 21.

Sæhólmi var gerður í mars 2004 og sá Stefán Einarsson frá Siglunesi um verkið. Megintilgangurinn var að laða hingað álftir til varps en þær settust ekki upp þar fyrr en 2008. Árið áður verptu þær hins vegar austan flugbrautarinnar.

Undirritaður tók strax á fyrsta ári að sér umsjón hólmans, með samþykki þáverandi bæjarstjóra, Runólfs Birgissonar, og endurnýjuðu umboði þess næsta, Guðmundar Guðlaugssonar. Til að byrja með var hey sett þangað út, til að reyna að lokka umrædda fugla til varps, en svo þegar það ekki gekk voru keypt grasfræ og ýmsar plöntur til að búa sem best í haginn fyrir verðandi íbúa þar.

Arnar Heimir Jónsson garðyrkjufræðingur aðstoðaði við að koma runnunum í jörð, 14. október 2004, en einhverju var svo bætt við – einkum íslenskum villigróðri – 5. júlí 2005. Flest af þessu lifir enn. Um 1 metra hárri birkihríslu, sem komið hafði verið fyrir milli steina, reif ein álftin þó í burtu eitt sumarið.

Farið var á hverju sumri til að setja lífrænan áburð á trjáplönturnar.

Æðarkolla átti fyrsta hreiðrið. Það var árið 2005. Síðan bættust fleiri þess kyns við.

Frá árinu 2008 hefur hettumáfurinn verpt þar töluvert, en er haldið í skefjum.

Allmargar fuglategundir eiga sér þar athvarf um lengri eða skemmri tíma, þótt ekki séu þær endilega verpandi, s.s. jaðrakan, kría, maríuerla og stelkur, auk hinna ýmsu andategunda.

Nú þætti mörgum eflaust snautlegt ef hólminn væri ekki þar sem hann er, enda er hann sannkölluð tjarnar- og fjarðarprýði. Rætt hefur verið um að nauðsynlegt væri að fá annan þar norðan við.

Baldursbráin er nýjasti landneminn og ekkert nema gott um það að segja.

Sökum uppákomu í fyrrasumar, þar sem álftaparið í Sæhólma, eftir útungun, tók upp á því að drepa andarunga á tjörninni í massavís og jafnvel stærri fugla, sem í vegi þess urðu, var því meinuð vist í hólmanum þetta sumarið. Eitthvað virðist hafa komið fyrir álftirnar, sem orsakaði þessa hegðun. E.t.v. á þetta rætur að rekja til þess atburðar, þegar þær misstu ungana sína ofan í grjótið við Langeyrarveginn sumarið 2014. Þeim var að vísu bjargað og reynt að koma þeim til foreldranna, en það mistókst. Ungarnir fundust svo örendir daginn eftir. Í fyrra hefur parið því miskunnarlaust bægt öllu frá, sem það taldi geta ógnað ungviði sínu.

Álftapörin í Siglufirði eru nú þrjú.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is