Mesti dýrgripur Bókasafns Fjallabyggðar


Í gær hófst níuviknafastan. Íslenska þjóðkirkjan heldur enn þann tíma í heiðri, þótt ekki sé lagst í beinan meinlætalifnað. Í stað þess er efni píslarsögunnar hugleitt. Þar leika veigamikið hlutverk Passíusálmar Hallgríms Péturssonar, 50 talsins, sem ortir voru á árunum 1656-1659 en fyrst prentaðir árið 1666 og hafa komið oftar út en nokkurt annað rit á Íslandi, eða 83 sinnum, og verið þýddir á fjölmörg tungumál – dönsku, ensku, færeysku, hollensku, ítölsku, kínversku, latínu, norsku, ungversku og þýsku – og e.t.v. fleiri.

Orðið ?passía? er komið úr latínu og merkir ?píslir? eða ?þjáning?. Af því orði er heiti sálmanna dregið. Réttur eða fullur titill er þó: Historia pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí.

   

Einungis er vitað um fjögur eintök útgáfunnar frá 1666 hér á landi, og þar af er eitt á Bókasafni Fjallabyggðar. Það er jafnframt mesti dýrgripur þess og varðveitt í rammgerðri hirslu á leyndum stað.

Fyrsti Passíusálmur hefst á þessum orðum:

Upp, upp, mín sál og allt mitt geð,

upp mitt hjarta og rómur með,

hugur og tunga hjálpi til.

Herrans pínu ég minnast vil.

Sú venja hefur verið hjá Ríkisútvarpinu allt frá 1944 að Passíusálmarnir eru lesnir um þetta leyti ár hvert. Frumkvæði að því átti Magnús Jónsson, prófessor og þáverandi formaður útvarpsráðs. Fyrstur til að lesa passíusálmana þar var Sigurbjörn Einarsson, þá dósent við guðfræðideild Háskólans og síðar biskup Íslands.

Flutningur Passíusálmanna á Rás 1 hefst einmitt í kvöld, mánudaginn 21. febrúar. Lesturinn er nú með öðru sniði en verið hefur, því flytjendur eru 25 unglingar, verðlaunahafar úr Stóru upplestrarkeppninni, á aldrinum fjórtán til átján ára. Aldrei hefur svo ungt fólk lesið sálmana áður. Hver lesari flytur tvo sálma.

    

Útvarpslestrinum lýkur að kvöldi laugardags fyrir páska. Útvarpað er kl. 22.10.

Hér er titilsíða frumútgáfunnar, 1666.

Mynd: Fengin af Netinu.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is