Mesta úrkoma á landinu


Siglufjörður skipar efsta sætið á skrá Veðurstofunnar um mestu úrkomu á landinu í dag, 87, 0 millimetra (frá miðnætti á sunnudagskvöld til miðnættis á mánudagskvöld). Í öðru sæti er Ólafsfjörður með 19,2 millimetra úrkomu. Skráin er birt á á vefsíðu Veðurstofunnar, vedur.is.

Ef skoðaðar eru mælingar á klukkustundar fresti sést að mest hefur rignt kl. 21.00-22.00, 6,7 millimetrar á einni klukkustund. Það samsvarar 161 mm á sólarhring, sem er mjög mikið.

Íslandsmetið er 293 millimetrar á Kvískerjum í Öræfum 9.-10. janúar 2002. Það jafngildir rúmum helmingi af ársúrkomu á Akureyri og mun vera met við norðanvert Atlantshaf. Reykjavíkurmetið er 57 millimetrar frá 5. mars 1931. Akureyrarmetið mun vera um 52 millmetrar.

Ekki er vitað hvenær mest hefur rignt á Siglufirði. Þó mældist 120 millmetra úrkoma 27. júlí 1988 og 98 millmetra 28. ágúst sama ár, þegar skriðurnar féllu í Ólafsfirði.

Myndir: Skjáskot af vef Veðurstofunnar.
Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is