Meira salt í Bátahúsinu í kvöld


Í tilefni af Síldardögunum verður efnt til kvöldskemmtunar í Bátahúsi Síldarminjasafnsins í kvöld kl. 20.30 undir heitinu Meira salt. Þar verða söngvar síldaráranna rifjaðir upp og fluttar kveðjur í anda óskalagaþáttar sjómanna, Á frívaktinni.

Heiðursgestir eru hin landsfræga söngkona Helena Eyjólfsdóttir og Björn Jörundur Friðbjörnsson, sem á ættir að rekja til Siglufjarðar. Hljómsveitina skipa Miðaldamennirnir Sturlaugur Kristjánsson, Ragnar Páll Einarsson og Dúi Benediktsson. Söngkvintettinn Gómar tekur þátt í skemmtuninni, en hann skipa Friðfinnur Hauksson, Mundína Bjarnadóttir, Þórarinn Hannesson, Birgir Ingimarsson og Björn Sveinsson. Kynnir er Anita Ellefsen.

Söngskemmtanir þar sem rifjuð eru upp lög síldaráranna hafa notið mikilla vinsælda undanfarin sumur, bæði hjá heimamönnum og ferðamönnum.

Hér fyrir neðan má sjá myndir frá söngskemmtun í Bátahúsinu fyrir tveimur árum þar sem hinn eini sanni Ragnar Bjarnason var heiðursgestur.

Myndir: Tómas Jónasson | tomas@logform.is.

Texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is