Með landnámshænsni í bakgarðinum


Það er eitthvað mjög svo heilbrigt og eðlilegt við það að fá að vakna við orginal hanagal að morgni dags, hvað þá í upphafi 21. aldar, í erli lífsins í næstum 100 ára gömlum kaupstað nyrst á Tröllaskaga, og það hafa íbúar í næsta umhverfi við Hvanneyrarbraut 52 á Siglufirði fengið að reyna að undanförnu, því hjónin Guðmundur Ólafur Einarsson og Ragna Ragnarsdóttir, sem þar búa, eru með tvo hana og ellefu hænur sér til ánægju, í þar til gerðu húsi undir bílskúrnum og rúmgóða lóð að auki fyrir púturnar að spóka sig á.

„Okkur hafði lengi langað að fá okkur íslensk hænsni, en aldrei gert neitt frekar í því, en svo fyrir um tveimur árum létum við slag standa, eftir að hafa séð í Morgunblaðinu frétt um verðlaunahana í Dalsgarði í Mosfellsbæ, Ólaf Ragnar, og við settum okkur í samband við eigandann og fengum nokkrar hænur hjá honum og einn hana,“ segja þau hjónin, aðspurð um hvað hafi orðið til þess að þau hafi farið út í þetta tómstundagaman.

„Við óttuðumst það helst að kettir myndu leita í hænurnar, enda mikið um þá í hverfinu, en það er eins og þeir leggi ekki í þær. Alla vega hafa þeir ekki sést á lóðinni eftir að hænsnahaldið byrjaði.“

Ástæðan fyrir því að hanarnir eru tveir er sú, að þau fengu einhverju síðar gefins tvo hænuunga, sem áttu að vera hænur, en annar reyndist veri hani. Sá fékk nafnið Krummi, enda að mestu svartur. Hann á dálítið undir högg að sækja, enda er hinn haninn, Einar H. Guðmundsson, eldri og vill hafa sitt kvennabúr í friði. Hann er nefndur í höfuðið á tengdaföður Rögnu.

Hænunum hefur líka öllum verið gefið nafn og heimasætan á bænum, Tinna Elísa, 13 ára gömul, er ekki í vandræðum með að telja þau upp fyrir blaðamann: Djessí, Fríða, Gullbrá, Lára, Lóa, Mjallhvít, Snædís, Ragna, Skittles, Soffía og Sússí. Mjallhvít er elst, Snædís yngst.

Gamall og merkur hænsnastofn

Hænsni eru nefnd í íslenskum fornsögum, s.s. Hænsna-Þóris sögu og Flóamannasögu, og þótt ekki sé þeirra að mörgu getið í frásögnum á síðari öldum hafa þau lifað áfram. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson skýra t.d. frá því að í Öræfum séu hænsni haldin á hverjum bæ. Þau séu smávaxin, svört að lit og verpi afar vel, þótt þau fái aldrei korn. Árið 1894, þegar Þorvaldur Thoroddsen var á ferð þar, var þau hvergi að finna, en hins vegar í Nesjum, Lóni og á Héraði.

Niðurstöður rannsókna á uppruna íslenskra húsdýra benda eindregið til að þau séu ættuð frá Noregi og hafi borist til Íslands um landnám, ritar Stefán Aðalsteinsson í bókinni Íslensk þjóðmenning, 1. bindi (1987). Hænsnin eru þar engin undantekning, því rannsóknir gerðar árið 1984, þar sem blóðsýni var tekið úr 50 hænsnum, sem safnað hafði verið saman víðs vegar að af landinu, síðustu leifunum af gömlum íslenskum hænsnastofni sem verið hafði til svo að segja á hverjum bæ á fyrrihluta 20. aldar, leiddu í ljós, að vefjaflokkarnir í þeim voru að verulegu leyti frábrugðnir þeim vefjaflokkum sem þekktir eru í dag. Aðeins 28% vefjaflokkanna í íslenska stofninum voru þekktir í algengustu hænsnakynjum í nágrannalöndunum en 72% þeirra voru af gerðum sem áður voru að mestu óþekktar. Ein af þessum vefjaflokkagerðum, sem kom þó bara fyrir í einni íslenskri hænu, hafði áður fundist í mörgum hænsnum af gömlum norskum stofni. Önnur gerð, sem var algeng í íslensku hænsnunum, en óþekkt annars staðar, var mjög svipuð vefjaflokki sem líka finnst í þessum gamla norska stofni.

Á aðalfundi ERL (Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna) fyrir árið 2012 og haldinn var í mars 2013 var meðal annars lögð fram niðurstaða nefndar sem skipuð var til að vinna að lýsingu á einkennum íslensku landnámshænsnanna. Niðurstaðan var þessi:

Útlitseinkenni:

 • Fremur lítill haus miðað við búkstærð og goggur stuttur, breiður og boginn fremst.
 • Misstórir fjaðratoppar á haus algengir.
 • Kambar af ýmsum gerðum, einfaldur; annað hvort beinn eða lafandi, rósakambur, blöðrukambur, kórónukambur og krónukambur.
 • Eyru hvít eða fölgul.
 • Separ langir á hönum en misstórir á hænum.
 • Augu gulgræn eða gulbrún/orange.
 • Háls fremur stuttur og sver.
 • Búkur þéttvaxinn, stutt bak sem mjókkar aftur og breið, hvelfd bringa.
 • Þyngd: hænur 1.4-1.6 kg og hanar 2.1-2.4 kg hjá fullvöxnum fuglum.
 • Fiðurhamur þéttur og sléttur.
 • Vængir breiðir og stuttir, mjókka aftur með búknum.
 • Stél hátt sett, mjög  hreyfanlegt. Hanar með nokkrar langar og bognar stélfjaðrir.
 • Litafjölbreytni mjög mikil, allir litir leyfðir.
 • Leggir langir og í mörgum litum.
 • Hænur venjulega með litla spora, en hanar með langa og uppsveigða spora.
 • Klær fjórar, afturkló eilítið innanfótar.
 • Leggir berir.

Atferliseinkenni:

 • Mannelsk, forvitin og sjálfbjarga.
 • Heldur góðu jafnvægi.
 • Hænurnar hafa sterka móðurhvöt og vilja gjarna liggja á.

Ánamaðkar, spagettí og hrísgrjón

„Hænsnin okkar borða alla matarafganga en við verðum að passa okkur á að gefa þeim ekki mikinn lauk, því hann getur eyðilegt bragðið af eggjunum. Og sítrusávextir fara ekki vel í þau, geta valdið meltingartruflunum,“ segja Guðmundur og Ragna. „Og svo gefum við þeim varpfóður, sem við kaupum í sekkjavís. Þá eru ánamaðkar í sérstöku uppáhaldi, sem og spagettí og hrísgrjón, jafnt elduð sem hrá. Komist hænsnin í slíkt verður allt vitlaust. Og ef um unga er að ræða þarf að gefa þeim sérstakt ungafóður til að byrja með, með ýmsum lyfjum í til að fyrirbyggja sjúkdóma.“

Sérstök varphólf í húsinu eru fjögur. Eitt á að duga fyrir fjórar hænur, segir Guðmundur; þær einfaldlega skiptast á. Hins vegar eru oft læti þegar slegist er um réttinn til að fá að leggjast þar. Þær hvæsi og gera sig breiðar, segir Ragna. Það eru ótrúlegustu hljóð sem þá komi frá þeim.

Um sex mánaða gamlar geta íslenskar hænur farið að verpa en eftir svona tvö ár er farið að draga mjög úr því, segir Guðmundur. Þær geta lifað hátt í 18 ár. Siglfirsku hænurnar eru allar verpandi. Lóa er með tíu egg undir sér og fær að liggja á þeim í öðru búri, innandyra, þar sem ekkert nær að trufla.

Tinna Elísa er, eins og foreldrarnir, að stússast í þessu af lífi og sál og langar í enn fleiri unga, en það hefur ekki fengið hljómgrunn enn sem komið er. Einhverju sinni laumaðist hún til að setja egg upp á ofninn í herbergi sínu, en upp komst um ráðabruggið.

Líkar bölvanlega við snjóinn

Bílskúrinn, fyrir ofan hænsnahúsið, var upphaflega byggður á stólpum og var opið undir hann að hluta. Restinni var mokað í burtu, timburveggir byggðir og gólfplata steypt og annað græjað eftir kúnstarinnar reglum, þegar ákveðið var að hinir nýju íbúar ættu að fá að búa þar. Og ekki væsir um þá, í 10-15 gráða hitanum.

„Hænsnin eru mikið til úti á morgnana og daginn en inni á næturnar; þær fara sjálfar inn um kvöldmatarleytið, vilja ekki vera úti eftir að rökkva tekur. Við lokum svo yfirleitt seint á kvöldin,“ segja Guðmundur og Ragna. „Þeim líkar bölvanlega að vera úti ef jörð er hvít; þau reka aðeins út nefið en halda sig annars innan dyra. Eru ekki hrifnar af snjónum.“

Þau baða sig á veturna með því að ausa yfir sig sagi, sem er á gólfinu inni í húsinu, en á sumrin er notast við moldina úti í garði. Sagið er bakteríudrepandi.

Og líkt og mannfólkið eru hænsnin afar mismunandi karakterar.

„Við fylgjumst oft með þeim af svölunum eða út um gluggann. Þau eru alveg óborganleg. Þverskurður af mannlífinu. Sumar hænurnar frekari en aðrar og hanarnir að monta sig. Og svo er einelti í gangi og flest annað.“

Og þið sjáið ekki eftir því að hafa fengið ykkur þessi íslensku hænsni? er spurt. „Nei,“ svara þau bæði. „Ég vissi ekki að þetta yrði svona skemmtilegt,“ segir Ragna. „Maður hefur virkilega gaman að þessu.“

Egg fékk blaðamaður svo gefins þegar hann kvaddi. Þau voru ljúffeng. Gerast ekki betri.

Úr Morgunblaðinu í dag.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]