Kveðja frá Ástralíu


Golfsnillingurinn okkar og Íþróttamaður ársins 2017, hún Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, sem eins og áður hefur komið fram er af siglfirskum ættum, en hún er dóttir Elísabetar Erlendsdóttur og Kristins J. Gíslasonar, var um síðustu helgi að keppa á Ladies Classic Bonville golfmótinu í Ástralíu, sem er afar sterkt. En þetta var ekki allt hvað Siglufjörð og Siglfirðinga snertir, því kylfusveinn hennar að þessu sinni var frændi hennar og Siglfirðingurinn Guðlaugur Birgisson, sonur Sóleyjar Erlendsdóttur og Birgis Haukssonar, sem ráku Hótel Höfn hér á árum áður. Gulli Birgis, eins og hann er alltaf kallaður, býr þarna í grenndinni í Ástralíu – ef hægt er að tala um grennd í því stóra landi. Hann sendi vefnum þær myndir tvær sem hér fylgja, sem teknar voru ytra, og eru hér með færðar bestu þakkir fyrir.

Já, þeir eru víða Siglfirðingarnir.

Myndir: Guðlaugur Birgisson.
Texti: Kristján L. Möller.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is