Með GPS-tæki á bakinu


Þann 24. maí síðastliðinn náðist mynd af jaðrakaninum hér fyrir ofan. Það sem vakti athygli tíðindamanns var litli skjárinn sem hann var með á bakinu auk þess sem litmerki á öðrum fæti voru þrjú, en ekki tvö eins og hjá Bretunum sem hafa verið að merkja jaðrakana í Siglufirði á undanförnum árum, og svo var bara eitt langt á hinum fætinum. Þetta var allt mjög sérstakt.

Eftir fyrirspurnir hingað og þangað kom í ljós, að fuglinn hafði verið merktur þessum tólum 19. október í fyrra á Moeze-Oléron náttúruverndarsvæðinu í Frakklandi af þarlendum fuglafræðingum.

Ekki hefur tekist að komast að nánari upplýsingum um þennan langförula jaðrakan með GPS-tækið á bakinu, en lesendur verða upplýstir um það um leið og svör taka að berast. Vera má að þetta sé siglfirskur fugl, því jaðrakanar hér í firði hafa vetrarstöðvar víða með ströndum Vestur-Evrópu, allt frá Bretlandseyjum og suður til Spánar. Hitt gæti líka verið að þetta væri aðkomufugl sem hefur borið af leið, því hann er oftast einn á vappi og virðist ekki tengjast þeim sem fyrir eru.

En þetta á sumsé allt vonandi eftir að koma í ljós.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is