Matráður smíðar bát


Á baksíðu Morgunblaðsins var dag einn í síðustu viku áhugaverð frétt um endursmíði á svonefndum Vatnsdalsbát frá 10. öld, sem þeir feðgar Hjalti Hafþórsson og Hafþór Rósmundsson hafa unnið að í gamla slippnum á Siglufirði undanfarið.

Þar sagði orðrétt:

?Þetta
er það alskemmtilegasta sem ég hef komist í. Að sjá bátinn birtast
fyrir augunum á mér eftir 10 ára vinnu er engu líkt,? segir Hjalti
Hafþórsson um endursmíði á bátnum sem fannst í kumli í Vatnsdal við
sunnanverðan Patreksfjörð 1964.

Það er ekki á hverjum degi sem
gerð er tilraun til þess að smíða eftirlíkingu af íslenskum báti frá
landnámsöld. Hjalti segir að töluverðar upplýsingar séu til um sjö gömul
kuml en fornleifafræðin hérna gangi alltaf út á það að skoða hvað sé í
bátunum og þeir sjálfir hafi orðið útundan. Eftir að hann hafi byrjað að
sinna bátaverndarmálum hafi hann velt því fyrir sér hvort mögulegt væri
að setja saman bát og byggja á upplýsingum úr þessum kumlum, átta sig
þannig á því hvernig bátarnir voru smíðaðir stuttu eftir landnám.

Fyrir
um 12 árum byrjaði Hjalti að lesa sér til um rannsóknir á kumlunum og
valdi strax Vatnsdalsbátinn með eftirgerð í huga. ?Ástæðan er sú að í
rannsóknarskýrslunni um bátinn er talað um að þeir telji að þetta sé
íslensksmíðaður fiskibátur.? Hann hefur auk þess kynnt sér heila
samtíðarbáta á söfnum í Noregi til að fylla og geta í eyðurnar. ?Ég hef
lesið allt sem mögulega er hægt að komast yfir í þessu sambandi og hef
þvælst erlendis auk þess sem ég hef tekið tillit til íslensksmíðaðra
árabáta, þó að elstu upplýsingar um þá séu frá 18. öld, en þróunin var
ekki það ör.?

Smíði bátsins hófst í
gamla slippnum á Siglufirði í
lok júlí og er báturinn nánast tilbúinn. ?Það er sérstakur fílingur að
smíða bátinn hérna inni,? segir Hjalti um aðstöðuna en mennta- og
menningarmálaráðuneytið og Síldarminjasafn Íslands styrktu verkefnið.
?Ég er að smíða í hann þóftur núna.? Hann segir að engin vandamál hafi
komið upp nema hvað eitt borðið hafi sprungið eftir endilöngu eftir að
þeir hafi þvingað það og gert það klárt fyrir neglingu.

Falur fyrir rétt verð

Hjalti

starfaði lengi sem trésmiður, en er nú matráður á hjúkrunar- og
dvalarheimilinu Barmahlíð á Reykhólum í Reykhólahreppi. Hann hefur notað
sumarfríið í smíðina en byrjar aftur á vöktum í eldhúsinu um helgina.
?Ég kem til með að nota vaktafríin í smíðina og ætla að ljúka henni í
september.?

Óvíst er hvað verður um bátinn. ?Hann er falur fyrir
rétt verð svo ég geti haldið áfram,? segir Hjalti. ?Það er af nógu að
taka.?

Fengu trénagla sem minjagripi

 

Margir hafa fylgst
með smíðinni og gestum hefur fjölgað eftir því sem verkinu hefur miðað
áfram. ?Það hefur komið mér á óvart hvað áhuginn hefur verið mikill,?
segir Hjalti, en um helgina var skemmtiferðaskip í Siglufirði og fullt
út úr dyrum hjá honum. Hjalti segir að erlendu gestirnir hafi tæmt
birgðirnar af trénöglunum, fengið þá sem minjagripi. ?Aðstoðarmaður
minn, karl faðir minn, Hafþór Rósmundsson, hefur tálgað alla trénaglana
og hann situr núna og tálgar.?

Báturinn er feræringur, smíðaður
úr lerki eins og Vatnsdalsbáturinn. Hann er 5,90 m að lengd en Þór
Magnússon, fornleifafræðingur og síðar þjóðminjavörður, taldi að gamli
báturinn hefði varla verið mikið yfir sex metra langur.

Nánari upplýsingar um smíðina er að finna hér.

Hjalti var einn að vinna í gamla Slippnum
þegar tíðindamann og ljósmyndara Siglfirðings.is bar að garði,

laugardaginn 1. september.

Þá var hann nýbúinn að tjörubera hið glæsilega fley.

Myndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

Texti: Morgunblaðið (Steinþór Guðbjartsson | steinthor@mbl.is) / Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is