Marokkóskur kokkur á Siglunesi


„Jaouad Hbib, kokkur frá Norður-Afríkuríkinu Marokkó, er tekinn til starfa á veitingastaðnum á Hótel Siglunesi. Hann er með 28 ára reynslu af því að elda á veitingahúsum og hótelum í heimalandi sínu og ætlar að vera hér í það minnsta eitt ár. Ég leit við hjá honum í dag þegar hann var að kynna sér aðstæður í eldhúsinu og óhætt er að segja að maturinn sem hann var að útbúa hafi verið framandi og spennandi í senn. Jaouad leggur mikla áherslu á gæði hráefnis og kom með eigið krydd með sér, ilmurinn í eldhúsinu var líka einstakur. Hér er á ferðinni maður sem greinilega kann sitt fag. Á morgun verður veitingastaðurinn á Siglunesi svo opnaður formlega og ekki er að efa að maturinn þar eigi eftir að slá í gegn.“ Þetta ritar Björn Valdimarsson á Facebooksíðu sinni.

Í kvöld var nokkrum Siglfirðingum boðið að smakka á því sem Jaouad Hbib hafði töfrað fram og víst er að enginn fór vonsvikinn heim. Forréttirnir voru þrettán, hver öðrum betri, og hráefnið þar mikið til úr jurtaríkinu, og svo komu þorskur, rækja, skelfiskur, kjúklingur, lambakjöt og nautakjöt í aðalrétt, ásamt meðlæti, og gómsætir og seiðandi ávextir í eftirrétt.

Hvílíkar kræsingar.

Myndir og texti: Björn Valdimarsson og Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]