Margt í boði í Siglufirði um páskana


Það verður mikið um að vera í Siglufirði í vikunni sem nú er hafin og á páskadögunum ? helgihald, skemmtanir og íþróttamannvirki opin. Svo má ekki gleyma hve fljótlegt er að skjótast til næstu þéttbýlisstaða við Eyjafjörðinn. En hér má lesa um brot af því sem verður á heimaslóð.

Vortónleikar Tónskóla Fjallabyggðar verða í Siglufjarðarkirkju í dag, mánudaginn 18. apríl, kl. 18.00, og svo í Tjarnarborg í Ólafsfirði á morgun og hinn, 19. og 20. apríl, á sama tíma.

Páll Óskar Hjálmtýsson verður með dansleik í Allanum á miðvikudagskvöld, 20. apríl, og daginn eftir verður barnaball og unglingaball.

Á skírdagskvöld, kl. 20.00, verður kertamessa í Siglufjarðarkirkju, með altarisgöngu.

Hljómsveitin Vanir menn býður upp á skemmtidagskrá í tali og tónum í Bátahúsi Síldarminjasafnsins á föstudaginn langa, 22. apríl, þar sem hin landsfræga söngkona Þuríður Sigurðardóttir bætist í hóp vönu Siglfirðinganna.

Eftir miðnætti á föstudagskvöld, 22. apríl, verður dansleikur í Allanum með Eyþóri Inga og hinum fögru.

Sönghópurinn Gómar verður með skemmtun í Allanum laugardaginn 23. apríl, með áherslu á lög frá níunda áratugnum.

Hátíðarmessa verður í Siglufjarðarkirkju kl. 08.00 að morgni páskadags, 24. apríl, og veisla í safnaðarheimilinu á eftir í boði Systrafélags Siglufjarðarkirkju.

Eftir miðnætti á sunnudagskvöld verður dansleikur í Allanum með hljómsveitinni Ný dönsk.

Íþróttamiðstöð Fjallabyggðar verður opin beggja vegna (þ.e.a.s. í austur- og vesturbænum) frá skírdegi til annars í páskum frá kl. 14.00-18.00.

Skíðasvæðið í Skarðsdal verður opið mánudag, þriðjudag og miðvikudag frá kl. 13.00-19.00, og á skírdag, föstudaginn langa, laugardag, páskadag og annan í páskum frá kl. 10.00-16.00.

Síldarminjasafnið verður opið föstudag, laugardag og sunnudag frá kl. 13.00-15.00.

Þjóðlagasetrið verður opið föstudag, laugardag og sunnudag frá kl. 13.00-17.00 og kl. 14.00 alla þá daga munu Vinir ljóðsins lesa fyrir gesti og kvæðamenn syngja.

Samkaup-Úrval er með opið á fimmtudag frá kl. 10.00-19.00, en lokað á föstudaginn langa, opið á laugardag frá kl. 10.00-19.00, lokað á páskadag en opið á annan í páskum frá kl. 13.00-18.00.

Aðalbakaríið verður opið á skírdag frá kl. 09.00-15.00, á föstudaginn langa frá kl. 10.00-14.00, á laugardag frá kl. 09.00-15.00 og á páskadag frá kl. 10.00-14.00. Lokað er á mánudag.

Bensínstöðin verður opin á
fimmtudag frá kl. 10.00-20.00, á föstudag frá kl. 11.00-18.00, laugardag
frá kl. 09.00-20.00, páskadag frá kl. 11.00-18.00 og annan í páskum frá
kl. 10.00-20.00.

Sjá nánar auglýsingu á heimasíðu sveitarfélagsins (Páskar í Fjallabyggð) þar sem er að finna símanúmer veitingastaða, gistihúsa og margt fleira.

 

Það verður margt í boði í Siglufirði í dymbilvikunni og á páskadögunum.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is