Margir litu inn í Siglufjarðarkirkju


Vel á annað þúsund manns ritaði nafn sitt í gestabók Siglufjarðarkirkju í sumar, en hún var þá í annað sinn opin almenningi til sýnis, að þessu sinni frá 10. júní til og með 24. ágúst, á milli kl. 13.00 og 17.00 alla daga, svo fremi að ekki væru þar athafnir í gangi eða kirkjan upptekin út af einhverju öðru, s.s. tónleikum. Sveitarfélagið Fjallabyggð greiddi laun tveggja starfsmanna virka daga en Félag eldri borgara og Systrafélag Siglufjarðarkirkju sáu um gæslu og leiðsögn um helgar í sjálfboðavinnu.

Íslendingar voru þarna í meirihluta en einnig má lesa undirskriftir og kveðjur frá Austurríkismönnum, Bandaríkjamönnum, Belgum, Dönum, Frökkum, Færeyingum, Hollendingum, Ítölum, Möltubúum, Norðmönnum, Pólverjum, Spánverjum, Suður-Kóreumönnum, Svisslendingum, Svíum, Þjóðverjum og einhverjum fleiri.

Opna úr gestabókinni sumarið 2014.

Í mörg ár hafði staðið til að hafa Siglufjarðarkirkju opna yfir sumartímann, enda margur ferðamaðurinn sem þar gekk að læstum dyrum. Fyrir ýmissa hluta sakir var ekki unnt að láta verða af þessu fyrr en sumarið 2013. Þá var hún opin í mánuð.

Stefnt er að því að halda áfram á sömu braut þriðja sumarið, 2015, og byrja þá snemma í júní, eins og nú var, enda ljóst að mikill áhugi er fyrir því að skoða þetta mikla og fagra guðshús  okkar.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is