Mandarínönd heimsækir Siglufjörð


Mandarínönd, karlfugl í sínu fínasta pússi, er í heimsókn í Siglufirði þessa dagana. Hún er ættuð úr Austur-Asíu en er sennilega komin til Íslands frá Bretlandseyjum og er af flokki trjáanda, en þær eru í háttum svipaðar buslöndum, eins og rauðhöfðaönd, stokkönd og urtönd.

Mandarínönd er 41-49 sm að lengd og með 65-75 sm vænghaf. Karlfuglinn er afar litskrúðugur eins og meðfylgjandi ljósmynd ber með sér, en kvenfuglinn er brún- eða gráleitur að mestu, eins og títt er um kollur andfugla, fölari að neðan, og með hvítan augnhring og rák þaðan aftur úr.

Mandarínönd var eitt sinni útbreidd í upprunalegum heimkynnum sínum en hefur fækkað mikið vegna útflutnings og eyðingar skóglendis, að því er fram kemur á Wikipediu. Í austurhluta Rússlands mun stofninn vera kominn niður fyrir 1.000 varppör og eins er í Kína; í Japan er þó talið að megi finna um 5.000 pör.

Mandarínendur voru á 19. öld fluttar úr austri til Evrópu, í skrúðgarða aðalsmanna, en einhverjar náðu að sleppa út í náttúruna og tímgast og mynda varpstofna hér og þar. Núna munu t.d. um 7.000 pör vera í Bretlandi og töluverður fjöldi nærri Berlín í Þýskalandi og víðar um álfuna. Einnig eru nokkur hundruð varpfugla á einstaka stað í Norður-Ameríku.

Mandarínendur sjást af og til hér á landi, en aðallega þá á vorin og sumrin. Þetta mun vera sú eina af 30-40 sem sést hafa frá upphafi skráninga sem fyrir augu ber á miðjum vetri og jafnframt sú fyrsta sem heilsar upp á Siglfirðinga, eftir því sem best er vitað.

Varla þarf að nefna, að tegundin er alfriðuð.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]