Málað í blíðunni


Guðshús þurfa líka hressingar við, eins og aðrir bústaðir hér á Jörð. Í nýliðinni viku voru þessir iðnaðarmenn að mála um 30 metra háan turn Siglufjarðarkirkju, sem var farinn að láta verulega á sjá, og nutu við það aðstoðar einnar af bifreiðum Slökkviliðs Fjallabyggðar og með Ámunda Gunnarsson nærri.

Kirkjan fagnar 85 ára afmæli í haust, auk þess sem að 20. maí 2018 verða 200 ár liðin frá því að Siglufjörður öðlaðist verslunarréttindi og 100 ár frá því að hann fékk kaupstaðarréttindi.

Þegar Jón Helgason biskup vígði húsið, 28. ágúst 1932, voru liðnir rúmir 15 mánuðir frá því byggingarframkvæmdir hófust. Var þarna risin stærsta kirkja á Íslandi í þá daga, að Kristskirkju í Landakoti undanskilinni, sem hafði verið reist 1929. Tveimur áratugum síðar var Siglufjörður orðinn 5. stærsti kaupstaður landsins.

Siglufjarðarkirkja er um 35 metra löng og 12 metra breið.

Mynd og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is