MA-ingar í heimsókn


Í morgun komu nemendur úr Menntaskólanum á Akureyri ásamt nokkrum kennurum sínum, þar á meðal Sverri Páli Erlendssyni, í reglubundna heimsókn til Siglufjarðar og litu í kringum sig á fyrirfram ákveðnum stöðum. Var þarna um að ræða námsferð 1. bekkjar. Safnaðarheimilið hefur allt frá upphafi staðið þessum gestum opið á hádeginu, þar sem hvílst er um stund og matast og síðan þegin fræðsla um sögu fjarðarins og kristnilíf í gegnum aldirnar niðri í kirkju, náin tengsl sjómanna við þetta og önnur guðshús hér og svo rennt í gegnum nokkra helstu slagara síldaráranna í fjöldasöng, með Sturlaug Kristjánsson við hljómborðið. Og alltaf jafn ánægjulegt að sjá þessa gesti, enda áhugasamir og prúðir með afbrigðum.

Að þessu sinni varð breyting á, því bæjarlistamaðurinn forfallaðist óvænt. Þess í stað settist einn nemendanna við flygilinn og spilaði af mikilli innlifun og snilld Prelúdíu op. 3 nr. 2 í cís-moll eftir Sergei Rachmaninoff. Píanóleikarinn heitir Björn Helgi Björnsson og er nýorðinn 17 ára, fæddur í febrúar 2001. Hann hefur um árabil verið í píanónámi í Tónlistarskólanum á Akureyri, á framhaldsstigi, og er í hópi efnilegustu nemenda þar. Hann stefnir á að vera á raungreinasviði í MA, en bæði faðir hans og eldri bróðir eru tannlæknar.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | sae@sae.is.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is