Ljósmyndasýningar í Saga Fotografica


Hjónin Sigrún Kristjánsdóttir og Pálmi Bjarnason hafa unnið saman að ljósmyndum síðan árið 2003. Bæði eru miklir náttúruunnendur og ferðast mikið saman um Ísland til að sinna báðum áhugamálum – að skoða náttúruna og taka ljósmyndir. Bæði hafa tekið þátt í nokkrum ljósmyndasýningum og gefið út ljósmyndabækur.

Mjög áhugaverð sýning á ljósmyndum hjónanna verður opnuð í Saga Fotografica að Vetrarbraut 17 á Siglufirði á morgun, þjóðhátíðardaginn, 17. júní, en þá verða nákvæmlega þrjú ár síðan þetta óvenjulega og merkilega safn hjónanna Baldvins Einarssonar og Ingibjargar Sigurjónsdóttur var formlega opnað.

Allar myndirnar á sýningu Sigrúnar og Pálma eru teknar á Landmannaafrétti á Suðurlandi. Flestar eru frá Veiðivatnasvæðinu, sem er mikil náttúruparadís og mikill silungsveiðistaður. Þar eru dimmblá fjallavötn, mosagróin hraun, gróðurlaus fjöll og sandar.

Ljósmyndir Pálma og Sigrúnar verða til sýnis í Stofu ljósmyndarans á 2. hæð en á jarðhæð hússins er sem fyrr sýning á stórmerkilegum myndum Vigfúsar Sigurgeirssonar ljósmyndara.

Aðgangur er ókeypis sem fyrr og alltaf heitt á könnunni í Saga Fotografica.

Mynd og texti: Aðsent.

image_print


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is