„Ljóðið mun halda velli”


– Matthías Johannessen skáld telur að ljóð séu leið mannsins til að leita að sál sinni

Við Þórarinn Hannesson forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands á Siglufirði mæltum okkur mót við Matthías Johannessen skáld á Mímisbar Hótel Sögu, bar sem kenndur er við guð djúprar visku í norrænni goðafræði. Tilgangurinn var að kynna Ljóðasetrið fyrir Matthíasi, sem er óumdeilanlega einn af risum íslenskrar ljóðlistar. En talið barst fyrst að gildi ljóðsins.
Ljóðið kallar á krefjandi mennsku

„Nútíminn hefur tilhneigingu til að hafna ljóðinu – alveg eins og sígildri tónlist. Þjóðfélagið gengur meira og minna fyrir dægurlögum og fjölmiðlarnir ýta undir það,” sagði Matthías. „Í gamla daga var ljóðið sjálft fjölmiðill, menn sögðu svo margt í því. Ljóð voru eins og trússhestar milli byggðanna, með allar mögulegar upplýsingar og fréttir. Nú þarf þess ekki lengur en hin ljóðræna snilld er eftir og verður alltaf eftir. Hana drepur enginn.”

„Ljóðið geymist vegna þess að það er einkennandi fyrir manninn. Ekkert annað dýr á jörðinni fæst við sígilda tónlist eða ljóðlist, en önnur dýr hafa sín dægurlög, og þau eru í ýmsum myndum,” sagði skáldið. „Ljóðið kallar á góð vinnubrögð. Ef ljóð er ekki vandað er það einskis virði. Hægt er að yrkja skírskotandi ljóð sem kemur í stað langrar ritgerðar.”

„Ljóðið mun halda velli,” sagði Matthías „og ef það gerir það ekki er það ekki verst fyrir ljóðið, það er verst fyrir manninn, vegna þess að ljóðið er leið mannsins til að leita að sál sinni. Ljóðið kallar á krefjandi mennsku og ef maðurinn hafnar því er hann að hafna besta hlutanum af sjálfum sér.”
Arfleifð og andlegt fóður

Matthías telur að rækta þurfi áhuga á ljóðum strax í grunnskólum. „Krakkarnir eiga að fara með dróttkvæði og annan fornan kveðskap. Þá fer þetta inni í blóðið og fylgir þeim alla ævi. Skilningurinn getur komið síðar.”

Að mati Matthíasar er ljóðið arfleifð okkar og andlegt fóður. „Íslendingur án ljóðlistar er eins og eskimói sem aldrei hefur séð sel. Þegar ég var í vegavinnu hafði ég gaman af að hlusta á kallana. Þeir voru að búa til ferskeytlur og kenndu mér. Þetta var þroskandi,” sagði Matthías. „Ljóðlistin hefur átt ríkan þátt í að varðveita samhengi íslenskrar tungu í þúsund ár. Þjóðin hugsar ekki mikið um þetta. Hún hefur verið sagnaþjóð og hneigst til sagnaljóða. Við eigum hetjukvæði úr germanskri geymd og trúarljóð úr ásatrú og yfirgáfum þetta aldrei.”

„Svo eignuðumst við menn eins og Einar Benediktsson sem var fyrsta nútímaskáldið og áreiðanlega mesta ljóðskáld á jörðinni um sína daga.” Matthías segir að Einar hafi verið umdeildur og dæmdur hart af pólitískum andstæðingum. Svipað gerðist síðar. „Kalda stríðið átti þátt í því að koma óorði á ljóðið með vissum hætti. Menn voru að amast við fólki vegna stjórnmálaskoðana en ekki vegna ljóðrænnar getu.” En þetta er liðin tíð, að mati Matthíasar. „Ljóðið lifir, það varð ekki úti í öllu umrótinu.”
Líst vel á Ljóðasetrið

Þá barst talið að Ljóðasetrinu sem verður opnað á Siglufirði í júlí. „Það snertir fínar taugar í mér vegna þess að ég var í síldinni á Siglufirði á menntaskólaárunum og þekki gamla Siglufjörð. Í mínum huga er arfleifð bæjarins verðug fyrir fyrsta ljóðasetur á Íslandi og ég er mjög ánægður með það. Svona hlutir gera Ísland vinalegt og umhverfið uppörvandi, en það þarf ástríðu til að koma upp slíku setri.”
„Það var mikil menning á Siglufirði. Þarna var séra Bjarni Þorsteinsson og margt af mínu fólki, Sigríður kona hans var ömmusystir mín. Mér fannst fínt að vera á Siglufirði. Það er einhver fallegur blær yfir þessari minningu, uppörvandi og menntandi. Þetta var yfirgengilegt ævintýri,” sagði Matthías. „Svo fór ég og las upp á Siglufirði fyrir um tuttugu árum í gamla bíóinu. Ég átti ekki orð, það var eiginlega fullt hús. Og óskaplega fínir áheyrendur. Mér fannst fínt að lesa þarna. Það mundi ég vilja gera aftur.” Ef til vill kemur Matthías á ljóðahátíðina Glóð, sem verður 8.-10. september.

Síðan snéri Matthías sér til Þórarins og sagðist vera mjög hrifinn af þessu frumkvæði og afhenti honum tugi bóka sem hann hafði tínt saman handa setrinu. Einnig fylgdi plata með upplestri Matthíasar á ljóðum sínum, við undirleik „strákanna minna á Mogganum,” meðal annars Árna Jörgensen frá Siglufirði.

Þá afhenti Matthías Þórarni kvæði sem hefur ekki birst í neinni ljóðabók, áritaði það sem gjöf til Ljóðasetursins og gaf leyfi til að lesa mætti það upp við vígslu setursins föstudaginn 8. júlí. Matthías sagði að þetta væri kvæði um ævi okkar og væri í senn atómkvæði og ort í hefðbundnum stíl.
Ekki hættur að yrkja

Og aftur var rætt um skáld. Matthías telur þau ekki hafa mikla þörf fyrir að vera í fjölmiðlum. „Þau lifa í sínum heimi, með sínum verkum og hafa tröllatrú á þeim. Ef þau hafa það ekki er þetta puð til einskis.” En hvers vegna lifa sum skáld með þjóðinni en önnur ekki? „Alvöru ljóðskáld deyja aldrei, þó að þau deyi, vegna þess að þau eru alltaf einhvers staðar í undirmeðvitundinni. Eins og Jónas Hallgrímsson, hann er alls staðar.”

Í lokin var Matthías spurður hvort hann væri hættur að yrkja. „Nei, það hvarflar ekki að mér. Eða eins og Tómas Guðmundsson sagði einu sinni við mig: Að ég fari að deyja? Nei, það væri það síðasta sem ég gerði.”
Mynd og texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is. Áður birt í nýjasta tölublaði Hellunnar.
image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is