Lítið ljós


Margar bækur komu út á síðasta ári, einkum á seinni parti þess, og var jafnvel talað um metfjölda hvað þetta varðaði, ef undirritaður man rétt. Sumar þóttu merkilegri en aðrar og var hampað sem því nam, eins og gengur.

Sú fallegasta, bæði að innihaldi og útliti, fór þó hljóðlega um í jólabókaflóðinu. Barst ekki mikið á. Lágstemmd rödd hennar varð undir í þeim hávaða öllum. Hún lætur reyndar ekki mikið yfir sér, er ekki nema rúmar 10 blaðsíður, en þeim mun áhrifaríkari eru fyrir vikið myndirnar og orðin sem hún geymir. Birtan. Huggunin.

Bókin er eftir Særúnu Hlín Laufeyjardóttur og er tileinkuð minningu sonar þeirra hjóna, Særúnar Hlínar og Arons Mars Þorleifssonar.

Orðrétt segir höfundurinn:

„Árið 2015 misstum við son okkar. Hann fæddist andvana á 21. viku meðgöngu. Við gáfum honum nafnið Gabríel Máni. Dætur okkar, sem þá voru 3 og 6 ára gamlar, áttu ekki síður erfitt með missinn en við foreldrarnir, svo ég fór að spyrjast fyrir og leita að barnabók sem ég gæti lesið fyrir þær. Ég átti erfitt með að finna bók sem mér fannst henta, svo ég skrifaði sögu Gabríels og las hana fyrir dætur mínar. Það er Gleymmérei Styrktarfélag að þakka að sagan er nú orðin að bók og við fengum myndlistarkonuna Elínu Hansdóttur til þess að myndskreyta. Það er von okkar að sagan geti hjálpað einhverjum í gegnum sorgarferlið. Bókin heitir Lítið ljós og er til bæði á íslensku og ensku.

Ég er afar þakklát fyrir að Bókasafn Fjallabyggðar á Siglufirði og í Ólafsfirði og verslunin Hjarta bæjarins á Siglufirði eru með nokkur eintök, bæði á íslensku og ensku, sem fást fyrir FRJÁLS FRAMLÖG sem renna óskipt í styrktarsjóð Gleymmérei.“

Ritstjóri bókarinnar var Anna Lísa Björnsdóttir og um hönnun sá Helgi Hilmarsson.

Megi þessi litli demantur fara sem víðast með boðskap sinn.

Mynd: Úr bókinni Lítið ljós.
Texti: Sigurður Ægisson │ [email protected]

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]