Litið inn til Abbýjar


Það er mjög svo notalegt að hverfa inn í hina afslappandi kyrrð á Vinnustofu Abbýjar, við Aðalgötu 13 á Siglufirði, og gleyma sér eitt andartak, nú þegar aðventunni er að ljúka, með öllum sínum hávaða og látum, þvert ofan í það sem af stað var lagt með í árdögum hennar.

Arnfinna Björnsdóttir er þar húsráðandi, fædd árið 1942 og uppalinn í norðlenska síldarbænum og vill hvergi annars staðar búa.

Hún er móðir Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur, sem víða er kunn fyrir trélistaverk sín. Aðalsmerki móðurinnar er hins vegar klippimyndirnar, sem prýða veggi margra heimilanna nú orðið. Þó fæst hún við margt annað jafnframt.

„Ég endurnýti pappír úr gömlum tímaritum og almanökum, nota litafletina, og svo raða ég þessu upp, litunum, skuggum og öllu. Það eru kannski fimm litir í einni tunnu, ég rissa upp skyssur áður, og hef við hliðina á mér þegar ég er að vinna klippimyndirnar. Og þá eru það bara mínar minningar frá síldarárunum. Svo að það er bara gaman að því,“ segir hún þegar undirritaðan ber að garði og tekur að forvitnast um það sem fyrir augu ber, ekki síst konurnar í gulu svuntunum með björtu höfuðklútana.

„Ég byrjaði í þessum myndum 1996 eða eitthvað svoleiðis, fyrir um 20 árum. Svo er ég mikið í handavinnu líka. Ég nota tímann á kvöldin, þegar ég er heima að hvíla mig uppi í sófa. Þá er ég með heklunálina á fullu. Ég er nú ekkert allt of hrifin af sjónvarpsefninu, öðru en veðurfréttum og fréttum og einstaka innlendum þáttum en allt annað má fara þess vegna.“

Myndlistin heillaði

Þegar hún var 17 ára stóð hugurinn til myndlistarnáms, en það gekk ekki eftir. Henni var sagt að upp úr því væri ekkert að hafa. Þetta var árið 1959.

„Mig langaði svakalega, ég sá ekkert annað. En þar við sat. Ég fór því í Verzlunarskólann og útskrifaðist þaðan 1961,“ segir hún.

„Eftir að ég kom heim byrjaði ég hjá SR síldarverksmiðjunum, á skrifstofunni þar, sem var í Útvegsbankahúsinu þá. Ég var þar til 1965. Svo var ég beðin um að koma í vinnu til bæjarins.“ Hún fastréð sig þar 1966 og var þar til 2003, fyrst sem hafnargjaldkeri og svo launafulltrúi. Þá komst hún á eftirlaun og lét af störfum. „Ég vann hjá sjö bæjarstjórum. Þann síðasta, Guðmund Guðlaugsson, kallaði ég alltaf Guðmund sjöunda. Honum fannst það ekkert leiðinlegt, enda vissi hann ástæðuna,“ segir hún og brosir.

En listagyðjan kallaði í sífellu, lét Arnfinnu ekki í friði, og eitthvað varð að gera í málinu.

„Ég fór þrjá vetur í haust- og vorannir í myndlistarnám hérna á Siglufirði, í kvöldskóla, og það var Örlygur Kristfinnsson, sem lengi var forstöðumaður Síldarminjasafn Íslands, sem kenndi okkur. Þetta var í kringum 1990. Við fengum einkunnir frá Sauðárkróki. Eftir að það var búið, þá sagði Örlygur: „Farðu nú bara að vinna sjálfstætt, þú ert alveg með þetta, ég vil ekki hafa nein frekari áhrif á þig.“

Og þetta varð úr.

„Ég var fyrst með vinnustofu úti í Eyrargötu 16, þar sem Úra- og skartgripaverslunin var lengi, í kjallaranum, svo fór ég niður í Aðalgötu, í hús sem Óli bróðir átti, og loks í Sæbyhúsinu. Bærin átti það. Svo var það rifið. Þá kom ég hingað og hef verið hér síðan. Ég keypti það ekki löngu eftir að ég kom hingað, eða 2005. Og hér er ég búin að vera bara í rolighed síðan.“

Þarna er hún líka með sýningar.

Blaðamaður spyr um dúkkurnar, sem hanga í rólum niður úr loftinu.

„Jú, Kvenfélagasamband Íslands tók að sér upp úr aldamótunum síðustu að sauma dúkkur, sem voru svo seldar í Hagkaup fyrir 5.000 stykkið og allur ágóði rann til Barnahjálpar sameinuðu þjóðanna. Við saumuðum 24 dúkkur. Ég nýtti í hárið á einni þeirra sem hér eru núna gamlan trefil sem mamma hafði prjónað og kallaði hana Öldu, því hárið minnti á öldugang.

Svo fór ég að prófa að teikna í vor, þegar Eysteinn minn Aðalsteinsson varð 75 ára. Ég hugsaði mér að ég skyldi teikna ferilinn hans á sjónum eins og hann var, þegar hann var þar. Hætti fyrir 40 árum síðan, fór í land og var í Fiskbúð Siglufjarðar upp frá því; hætti ekki fyrr en síðastliðið vor. Svo í sumar ákvað ég að halda áfram með sjóaramyndirnar, því árið 2016 er ár hafsins, svo að ég bætti við fimm myndum í viðbót til að fylla vegginn. En ég er alltaf á kafi í klippimyndunum.

Mér finnst alveg dásamlegt að geta verið með svona aðstöðu þegar maður er hættur að vinna. Ég sagði upp hjá bænum þegar ég var búin að vera þar í 37 ár, á skrifstofunni, þá stóð ég á sextugu, þá ákvað ég bara að fara að taka því rólega og hjálpa Eysteini meira í Fiskbúðinni og svoleiðis.“

Listagenin og dugnaðurinn

 En hvenær er mest að gera hjá þér?

„Það er brjálað að gera á sumrin. Ég tek á móti gríðarlegum fjölda af gestum þá, ég er yfirleitt alla virka daga hér frá klukkan 2-5, en hef líka opnað um helgar ef hópar hafa viljað koma inn að skoða, árgangshópar og svoleiðis. En þetta eykur ekki neina sölu hjá manni, þessi traffík. Það er bara svo gaman að geta tekið á móti fólki. Þetta er allt til ánægju gert.

Svo er ég í fjörugrjótinu líka, ég vinn alveg grimmt úr því – jólasveina og tröll, fugla og kertastjaka og hitt og þetta.“

Það er vinsælast núna, á aðventunni. Og hún er með dúkristur líka.

„Útlendingar eiga það til að líta inn, en þeir eru ekki að versla mikið, heldur meira bara að skoða. Ég gef þeim kort frá Siglufirði, sem mér áskotnuðust. Ég segi það ekki, það er kannski einn og einn sem kaupir eitthvað smáræði.

Þetta er ekki neinn sérstakur bissness fyrir mann, þetta er miklu meira bara til þess að hafa gaman að þessu, afþreyingin, þú veist, ég fer út úr húsinu á hverjum degi og fer hingað niður eftir og er hér í þrjá klukkutíma, þetta er alveg yndislegt, og bæði vinir og skyldmenni koma hér. En það er alltaf gott að eiga eitthvað ef einhver skyldi líta inn.“

Hefur ekki Aðalheiður, dóttir þín, fengið bakteríuna úr þér?

Arnfinna hlær. „Ég segi það alltaf,“ svarar hún svo, „þegar fólk er að tala um hana, og spyrja mig, að vel megi vera að hún hafi listagenin úr mér, en dugnaðinn hefur hún úr föður sínum, það er alveg á hreinu.“

Svo málar Arnfinna líka.

„Já, ég hef gaman af að mála fuglamyndir, er alltaf að svipast um eftir hinum fiðruðu vinum. Ég hef líka voða gaman að því líka að hlusta eftir hljóðunum í þeim.

Ég málaði eitt sinn myndir af húsunum í kring, var bara í gluggunum heima á Hlíðarvegi 3. Ég tek enn myndir út um gluggana, aðallega til að fylgjast með litabrigðunum. Ég kalla þetta veðráttumyndir.“

Svo er gítar alltaf til reiðu á vinnustofunni, ef einhver kynni að vilja taka lagið, og harmonikka, sem móðir Arnfinnu, Hólmfríður Steinþórsdóttir, átti, og lék á fram á tíræðisaldur. Oft verða miklir tónleikar þarna, ekki síst ef inn koma hálærðir spilarar, eins og hefur komið fyrir. Þá er stuð.

Myndir og texti: Sigurður Ægisson | [email protected]
Fylgja: Viðtalið í Morgunblaðinu í dag.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: [email protected]