Listaverkið ekki lengur í anddyrinu


Í nýlega útkomnu Fréttablaði Siglfirðingafélagsins er sagt frá því að listaverkið sem Halla Haraldsdóttir listakona gaf Sjúkrahúsi Siglufjarðar við vígslu þess fyrir 45 árum sé ekki lengur í anddyri hússins. Ástæðan er ekki sú að listaverkið hafi verið fært, enda steypt á vegg, heldur að innganginum í Sjúkrahúsið var breytt þegar nýbyggingingin var tekin í notkun fyrir örfáum árum.

Halla segir í viðtali í blaðinu að listaverkið sýni lækningagyðjuna Eir. ?Vinstri hlutinn er hjúpaður skugga sorgar,? segir Halla, en ?andvari vonar og gleði birtist í líki fuglsins á hægri hlutanum, þar sem sól skín og færir okkur birtu og gleði?. Halla segir að Skúli Jónasson byggingameistari og Ólafur Þ. Þorsteinsson yfirlæknir hafi óskað eftir listaverkinu. Ólafur sagði síðar í bréfi til Höllu að á erfiðum stundum í starfi sínu hafi hann stundum sest framan við verkið og fengið úr því orku og andlegan styrk.

Ráðamenn Sjúkrahússins hafa verið að athuga hvað unnt sé að gera til að auðvelda gestum og gangandi að skoða það, en ekki hefur verið tekin nein endanleg ákvörðun. Ein hugmyndin var sú að byggja utan um það og hafa til sýnis á öðrum stað þar nærri. Alla vega er ljóst að ekki er hægt að koma því fyrir í nýju álmunni því lofthæð er ekki nægileg. Og hrun bankakerfisins og afleiðingar þess hafa ekki bætt úr skák hvað þetta varðar.

Nú er spurning hvort einhverjir heimamanna eða burtfluttra kunni hér einhver ráð?

Listaverkið magnaða sem Halla Haraldsdóttir bjó til og gaf Sjúkrahúsi Siglufjarðar við vígslu þess fyrir 45 árum

þarf að komast á hentugri stað, til að sem flestir fái notið þess. Um það er ekki deilt.

En hvert ætti það að fara og hvar að vera?


Mynd: Sigurður Ægisson | sae@sae.is

Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is og Sigurður Ægisson | sae@sae.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is