Líflegt í skíðabrekkunum í Skarðsdal


– auknir möguleikar skapast í ferðamennsku á Siglufirði sumar jafnt sem vetur með tilkomu Héðinsfjarðarganganna

Líflegt hefur verið í siglfirskum skíðabrekkum í Skarðsdal í vetur og fjöldi ferðamanna lagt leið sína þangað. ?Það eru göngin, ekki spurning,? segir Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri í Fjallabyggð, spurður um þessa auknu aðsókn.

Hann segir að fólk komi ýmist akandi að sunnan eða með flugi til Akureyrar og keyri þaðan. Margir stórir hópar hafi verið á ferð í vetur, skólahópar og ýmsir aðrir. Undanfarið hafi verið samvinna á milli skíðasvæðanna í Siglufirði, Ólafsfirði og Dalvík og margir nýtt sér möguleika á að nýta sama skíðakortið á öllum stöðunum.

?Héðinsfjarðargöngin opna margvíslega möguleika vetur sem sumar og vegalengdir eru svo miklu styttri en áður,? segir Sigurður. ?Skíðaíþróttin á hér mikla sögu og sérstaka menningu og það er ánægjulegt þegar svona vel gengur.? Hann segir að ágæt gistiaðstaða sé í boði í Fjallabyggð. Í Siglufirði sé gistiheimilið Hvanneyri, sem nýlega hafi verið endurbætt, skólarnir ef svo beri undir og fleiri möguleikar séu í boði. Á Ólafsfirði sé einnig góð skíðaaðstaða og þar er hótel Brimnes.

Síldarminjasafnið er opnað eftir þörfum yfir vetrartímann, en margir hafa áhuga á að skoða það að sögn Sigurðar. Mikil uppbygging hafi staðið yfir á vegum Rauðku niðri við höfnina. Veitingastaðurinn Hannes Boy hafi verið opnaður fyrir nokkru og í sumar verði opnaður stór fjölnota veislusalur, kaffihús og bar í rauða húsinu við smábátahöfnina.

Tveir níu hola golfvellir

Sigurður segir að stöðugt sé verið að bæta aðstöðu til að taka við ferðamönnum í Fjallabyggð og liður í því sé að tveir góðir níu hola golfvellir verði í Fjallabyggð.

?Framtíðaruppbygging golfvalla í Fjallabyggð hefur verið í skoðun og í þau mál er að koma niðurstaða. Bæjarfélagið mun væntanlega taka þátt í lagfæringum á golfvellinum Ólafsfjarðarmegin og síðan aðstoða við uppbyggingu á nýjum golfvelli við skógræktina í Hólsdal í í samvinnu við Golfklúbb Siglufjarðar og Rauðku.?

[Þetta skrif birtist upphaflega í Morgunblaðinu í dag, á bls. 6. Endurbirt með leyfi. Myndir eru þó fleiri hér.]

Myndir: Sigurður Ægisson | sae@sae.is


Texti: Ágúst Ingi Jónsson
| aij@mbl.is

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is