Lífið á Siglufirði 1915


Fyrir einni öld, í mars 1915, birtist í vikublaðinu Lögréttu grein sem nefndist „Smávegis frá Siglufirði“. Höfundurinn kallaði sig Hrólf, en ekki er vitað hver hann var. Ritstjóri blaðsins var Þorsteinn Gíslason skáld, faðir Vilhjálms Þ. Gíslasonar útvarpsstjóra og Gylfa Þ. Gíslasonar menntamálaráðherra. Hér verða birt nokkur brot úr þessari fróðlegu grein. Jónas Ragnarsson tók saman.

 

Orð og gjörðir á norsku

Aldargömul lýsing á lífinu á Siglufirði

 

Ausið úr gullnámu

Yfir höfuð er Siglufjörður vel og haganlega gerður frá náttúrunnar hendi og þar er til náttúrufegurð engu minni en víða þar sem orð er á gert. Þar eru vor- og sumarkvöldin oft aðdáanlega fögur, þegar sólin nær að gylla loft og lög með fegurðarlitum sínum.

Oft er fiskimiðum Íslands líkt við gullnámu og má það til sanns vegar færa því það er mikið efamál hvort meira er ávallt af hreinu gulli í smálestinni af gullleirnum úr gullnámum í Kaliforníu og Klondyke heldur en í smálestinni af því sem tekið er árlega úr fiskiveiðanámum Íslendinga. Tvo til þrjá mánuði á ári hverju er ausið úr þessari námu fyrir Norðurlandi síld sem nemur milljónum króna.

Það er nær því undrunarefni að sjá þau ósköp sem berast á land af síldinni um veiðitímann, þegar vel gengur. Fleiri tugir skipa, og jafnvel svo hundruðum skiptir ef öll síldveiðaskip eru talin sem veiðar stunda fyrir Norðurlandi yfir síldveiðitímann, koma daglega inn sökkhlaðin. Þetta gengur stundum svo vikum skiptir, ef veðráttan er góð. Ef stöðugt væri veiðiveður þessa tvo mánuði þá held ég að einhverjir fengju nóg af því góða, því aldrei mundi síldin þrjóta í sjónum, hversu miklu sem upp væri ausið.

Hugljúfar endurminningar

Ekkert kauptún né sérstök sveit á Íslandi mun hafa tekið jafn miklum stakkaskiptum á rúmum áratug eins og Siglufjörður hefur gert á síðastliðnum tíu til fimmtán árum. Breyting sú er ekki ólík því sem sagt er að eigi sér stað þar sem tekið er að vinna nýfundnar gullnámur – þar rísa upp stórar borgir á skömmum tíma og þangað streymir fólk svo þúsundum skiptir, líkt og árstraumur til hafs, og þann flokk fylla bæði voldugir og vesælir því allir vilja jafnt reyna til að öðlast framtíðarhnossið, því meiri auðæfi og yfirdrottnun, þess meiri nautnir og sæla, er oftast hugtak og mark þess volduga. Því meiri vinna og strit, þess meiri möguleikar að fleyta fram lífi sínu og sinna, er helsta keppimark þess snauða í lífsbaráttunni.

Sá orðrómur hefur borist út og komið mörgum fyrir eyru að óvíða væru jafn fljótfengnir peningar fyrir vinnu sína eins og á síldverstöðunum á Norðurlandi og er því verkafólksstraumurinn eðlilega mestur þangað. Þegar síldveiðitíminn kemur streymir fólkið að þessum stöðum, líkt og hafalda að sjávarströnd en munurinn er þó sá að sjávaraldan sogast jafnharðan út í hafið aftur en þessi alda staldrar við í tvo til þrjá mánuði áður en hún dregst af stað aftur.

Ein þessi alda, og hún ekki þeirra minst, flæðir á land í Siglufirði. Veiðiskipin fara venjulega að koma úr því er vika er liðin af júlímánuði og eru svo að smátínast að mánuðinn út, því að veiðin byrjar sjaldan fyrir alvöru fyrr en undir mánaðamótin júlí og ágúst. Öll koma skipin hlaðin fólki, hvort heldur þau koma austan um haf frá Noregi eða frá suður- og vesturströnd Íslands. Einnig eru öll fólksflutningaskip fullskipuð fólki til síldarvinnunnar um þessar mundir, hvort sem þau koma frá Noregi eða ýmsum stöðum hérlendum.

Fjöldi af þessu fólki hefur aldrei sést fyrr og veit engin deili hvað á öðru, en þannig þykir fáum gott að vera til lengdar. Augun taka því óðar til að skyggnast eftir nýjum vinum innan um fjöldann og er þau hafa hitt á einhverja sem þeim sýnist þess vert að gera vináttutilraunir við tekur tungan til starfa og síðan hvað af öðru eftir ástæðum. Og svo þegar hver og einn heldur heim til sín aftur að loknum starfstíma hefur hver einstaklingur eignast nýjan kunningja og margir jafnvel vini sem skilið er við með söknuði og sárum trega, en eftir lifa hjá báðum hugljúfar endurminningar um mörg sameiginleg ævintýri, og innileg þrá eftir fleiri endurfundum á lífsleiðinni.

Ekki stundarfriður

Um þær mundir sem hinar miklu síldarveiðar hófust fyrir Norðurlandi hafði lítið af eftirtektarverðum og áberandi mannvirkjum verið að finna á Siglufjarðareyri, aðeins verið þar nokkrir lélegir torfbæjakumbaldar ásamt tveimur til þremur íbúðarhúsum úr timbri. En nú er nokkuð öðruvísi þar um að litast en á þeim árum því nú er risið þarna upp stærðar kauptún sem vex óðfluga með ári hverju og þar hafa einnig ýmis kostnaðarsöm fyrirtæki verið framkvæmd á síðari árum svo sem vatnsleiðsla, rafljósalýsing o.fl. Þar starfa um tíu verslanir að sumrinu, sennilega með góðum árangri.

Í gegnum kaupstaðinn liggur aðalgata er nefnist á Siglufjarðarmáli „Hovedgaden“. Aðrar götur eru þar fáar, standa þó húsin alldreift um eyrina og er því vegleysa að þeim mörgum. Ekki þurfa Siglfirðingar að fylgja ströngum byggingarreglum vilji þeir koma sér upp húsi. Þar má hver einn fara eftir sínu höfði í þeim efnum, enda er húsagerð þar yfirleitt fremur léleg.

Á síðari árum hafa síldveiðaútvegsmenn margir hverjir byggt hús yfir verkafólk sitt, hafa þeir aðallega gert það til að tryggja sér fólkið betur. Sum þessara híbýla eru allgóð og fylgja víðast ýmis hlunnindi, t.d. ljós, hiti og eldavélar, og sums staðar einnig matreiðsla. En ónæðissamt þykir sumum að vera þar með köflum, því þarna eru oft ýmsir saman komnir, sem ekki eiga rétt vel samstöðu. Stundum er „slegið þar upp skröllum“ og er þá ekki stundarfriður fram eftir öllum nóttum fyrir þá sem meta hvíldina meira en dansinn, og er það næg ástæða til að gera skikkanlegustu menn að verstu danshöturum.

Til orustu við síldina

Allir verða að vera til taks á hvaða tíma sem er þegar síldveiðaskipin koma að með síld. Ryðst þá verkunarliðið út á síldverkunarpallana líkt og herlið til orustu, allir eru hlífum búnir eftir mætti og enginn fer heldur vopnlaus út í þá orustu. Vopnin eru venjulega kverksagstengur og blikkdiskar, allir eru færir til orustu móti síldinni þegar hún er komin upp á þurt land, með þessum vopnum, og þegar út á þennan vígvöll er komið draga fæstir af starfsþoli sínu.

Um helgarnar liggja veiðiskipin venjulegast inni, koma að á laugardagskvöldin og leggja ekki út aftur fyrr en á mánudagsnóttum. Er sunnudagurinn þá vitanlega notaður til hvíldar af allflestum, eða réttara sagt nokkuð af sunnudeginum því síðari hluta hans eru flestir komnir á kreik og farnir að hlakka til kvöldverkanna. Má þá stundum sjá margt manna á Siglufjarðareyri þegar gott er veður og sjómenn eru flestir gengnir á land. Er þá oft engu færra fólk á „Hovedgaden“ heldur en á Reykjavíkur-„rúndt“ á kvöldin þegar gott er veður og búið er að loka „Bíóunum“. Á kvöldin er svo venjulega stofnað til dansleikja og annars gleðskapar ef einhvers staðar er hægt að fá húsnæði. Er svo dansað og óskapast fram undir morgun, þegar ekki lendir allt í uppnámi í miðjum klíðum.

Tungunni misboðið

Hvergi á landi voru mun íslenskri tungu og þjóðerni vera jafn átakanlega misboðið eins og á Siglufirði um síldarveiðitímann. Þá má svo segja að orð og gjörðir flestra fari þar fram á norsku, eða einhverjum tungumálagraut, því þótt eitthvað fljóti íslenskt innanum þá gætir þess sáralítið því bæði eru útlendingar þar margir og svo reyna flestir að svo miklu leyti sem tungumálahæfileikar leyfa að mæla á norska tungu.

Áletranir á flestum utanhússauglýsingaspjöldum, bæði handverksmanna og verslana, eru dansk-norska, og auglýsi kaupmenn vörur sínar með sérstökum auglýsingamiðum sem dreift er út meðal fólksins þá er málið hið sama.

Mynd: Ókunnur ljósmyndari.
Texti: Jónas Ragnarsson | jr@jr.is.

image_print

Tagged:


SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is