Lífið á Siglufirði 1905


Siglufjörður var í gamla daga kunnur fyrir sinn úrvalshákarl. Menn höfðu hugmynd um að þar væru hákarlamenn miklir og sjósóknarvíkingar, sem sóttu hákarlinn á opnum bátum fleiri mílur norður í Íshaf á vetrum og drykkju til skiftis sjálfrunnið lýsi og brennivín. Jú. Siglfirðingar hafa lengi verið karlar í krapinu og ef til vill landsins sókndjörfustu sjómenn, sem hafa búið út af fyrir sig, bjargað sér sjálfir, smíðað sín skip, hafts sína einu verzlun, etið sinn hákarl og drukkið sitt brennivin, alt í hófi og með stakri reglu.

En svo kemur menningin, samgöngurnar og aðsóknin, og alt breytist á fáum árum. Fyrst fara Norðmenn að drepa hvalinn í hafinu fyrir norðan fjörðinn og mörgum hvalseilum var slefað þar inn árlega og allir sporðarnir og bægslin skilin þar eftir, en skrokkunum síðan slefað til stöðvanna fyrir austan og vestan. Af þessu myndaðist sporðasala innum alla sýslu, alt fram á fremstu bæi í Eyjafirði og Öxnadal. Siglufjarðar sporðarnir köstuðu um skeið skugga á Siglufjarðarhákarlinn. En engin makt sem til valda hefir komist hefir ríkt jafn stutt og sporðarnir því von bráðar uppgötvaðist það, að þetta var þvínær næringarlaus fæða og ekkert á hana að treysta. Hákarlinn náði aftur tölverðu af sínu forna áliti, en ekki en þá þeirri virðingu og frægð og hann hefir áður haft.

Seint á ríkisárum sporðanna slóu templarar sér niður á eyrinni við fjörðinn og linntu eigi látum fyr en Bakkusi var þar afneitað og eigi framar í búðir fluttur; var þannig fjarðarins gamli vinur útlægur gjör en í skúmaskotum og utanvið alla sölu á hann sér þar þó en friðland og allmjög blótaður á laun þegar minnst er rætt um söluleyfi eða tollmál, eða vegabréfum á lopti haldið, og væri vel ef templarismus legði völdin niður þegar hans dagar eru taldir með jafn miklum vinsældum og samneyti á eftir og Bakkus hefir gjört.

Um það leyti sem Templarar lokuðu gömlu búðinni fyrir Bakkusi svo hvergi var um opinbera sölu að ræða og um það leyti sem sporðarnir féllu fyrir hákarlinum kemur þriðja og langstærsta stórveldið til sögunnar, það var síldin eða reknetaveiðin. Sporðarnir og bindindið voru aðeins smámunir hjá þeirri hreyfingu, því svo mátti segja sem hún hefði endaskifti á öllum þar. Þessi afskekti fjörður varð tvo sumarmánuðina sá fjörðurinn á landinu sem langflest skip sigldu út og inn á, sem var alt fyrir síldina. Síldin hafði eins og hvalurinn frá ómunatíð verið óáreitt af mönnum út af Siglufirði norður við Íshafsbrúnina, því þótt Siglufirðingar væru sjómenn miklir,var hvalurinn þeim of stór að fást við, en síldin þótti þeim aftur of smá til þess að leggja mannskap sinn á hana, en Norðmenn komu og tóku upp hvortveggju veiðina utan landhelgis, þó síldarveiðina með miklu meiri ákefð og græðgi. Og Siglufjörð gerðu þeir að sumarstöð sinni. Smáir sækóngar frá vesturströnd Noregs sem allan aldur sinn höfðu á sætrjám svifið komu nú norður fyrir Siglunes og tóku sér sumarstöðvar á Siglufirði, því þaðan var skemst til síldarmiðanna. Þeir trúðu á síldina eins og Ólafur, og sintu ekki öðru, og voru engir smásmiglismenn, þeir ?töngluðust eigi’á um eitt túmark með gati? því alt var miðað við heila skipsfarma af síld.

Þessir sægarpar gátu eigi verið að raga verðið á lóðunum við séra Bjarna, voru eigi að brjóta heilann um landslög eða landhelgi, daglaun eða þessháttar, eigi heldur hvað whiskyflaskan kostaði eða hvort hún væri seld á löglegan hátt eða hefði einhverstaðar verið sett á tollskrá, þetta var alt of smátt fyrir þeim, þeir lögðu sig ekki niður við að hugsa um minna en heila skipsfarma af síld, öll þeirra viðskifti ultu daglega á þúsundum. Þótt töluvert gull befði fundist á Siglufjarðareyri hefði það eigi haft meiri áhrif á sumarlífið í firðinum en þessi Norðmanna aðsókn. Fyrir fáum árum var þar ein verzlun, nú eru þær 5 eða 6. Nú eru ýmsir farnir að gera sig út þangað til róðra, og menn úr öðrum landsfjórðungum fara þangað til að bjóða í fiskinn. Hér inn í Eyjafjarðarbotni verða menn svo greinilega varir við aðdráttaraflið norðvestur til litla fjarðariris, hér sem svo fátt heldur mönnum við nema bryggjan og brautin hans Páls.

Mæti maður hér á götu ungum og rösktum verkamanni og segi við hann sem svo: ?Ætlar þú í kaupavinnu í sumar laxi? svarar hann oftast ?nei eg fer til Siglufjarðar, þar fæst almennilegt kaup.? Og slái maður svo upp á spaugi við einhverja velbúna blómarós bæjarins og segi sem svo: ?Ætlið þér í sveit í sumar fröken.? Svarar hún, um leið og hún kastar ofurlitið til höfðinu: ?Nei eg fer til Siglufjarðar þegar síldin kemur, það er ekki verið að raga söltunina þar.?

Og þá fer maður að hugsa um hvort þorpin úti á annesjum yzt við úthafið muni með tímanum verða sterkari en þorpin inni í hinum lengri og veðursælli fjörðum landsins. Hvort hafið eða dalagróðurinn togi feldinn betur, eða muni skipta honum með sér að síðustu.

Svipmyndir úr ferð Friis til Siglufjarðar, sennilega sumarið 1908.

[Birtist fyrst í Gjallarhorni, Akureyri, 15. og 22. júlí 1905, án mynda. Textinn er endurbirtur hér stafréttur.]

Myndir: Hans Wiingaard Friis.

Texti: Ekki vitað.

image_print

SIGLFIRÐINGUR.IS | Sími: 899 0278 | Netfang: sae@sae.is